Vettvangsteymið mætir skjólstæðingum á þeirra forsendum
Vettvangsteymi er úrræði innan Akureyrarbæjar sem styður einstaklinga með geðfötlun og viðvarandi vímuefnavanda. Teymið veitir þjónustu alla daga ársins og aðstoðar við verkefni sem snúa að athöfnum daglegs lífs, svo sem innkaupum, erindrekstri, áminningum um lyfjatöku og öðru sem þarf hverju sinni.
„Við vinnum eftir hugmyndafræðinni um skaðaminnkandi nálgun, sem felur í sér að draga úr þeim skaða sem fylgir áfengis- eða vímuefnaneyslu. Þjónustan okkar stendur öllum til boða, óháð því hvort fólk er í virkri neyslu, sem er ólíkt mörgum öðrum úrræðum. Þessi hópur mætir oft litlum skilningi í samfélaginu, og því er traust lykilatriði,“ segir Arnþrúður Eik Helgadóttir, deildarstjóri ráðgjafar- og stuðningsteymis Akureyrarbæjar.
Teymið er skipað fjórum starfsmönnum, Gísla Sigurði Gíslasyni, Jóni Gesti Helgasyni, Skildi Hólm Ármannssyni og Ísaki Herner Konráðssyni. „Það sem gerir þá sérstaka er hæfileikinn til að tengjast fólki og mynda traust. Þeir vinna í nánu sambandi við skjólstæðinga, sem oft eiga erfitt með að treysta öðrum. Verkefnin eru fjölbreytt – teymið er alltaf á ferðinni og hefur bílinn sem skrifstofu. Starfsmenn sinna öllu frá því að skutla fólki í læknisheimsóknir eða vinnu og aðstoða við þrif, til að tryggja að fólk haldi húsnæði sínu.“
Árið 2023 voru í allt 44 einstaklingar sem fengu þjónustu frá teyminu í einhverju formi en vettvangsteymið leggur áherslu á að mæta fólki á þeirra eigin forsendum. „Okkar hlutverk er ekki að lækna fólk, en við verðum oft vitni að framförum og það jákvæðasta er þegar einstaklingar þurfa ekki lengur á þjónustu okkar að halda. Enn er þó hópur fólks sem þarf á slíkri þjónustu að halda en er ekki tilbúinn til að þiggja hana,“ segir Arnþrúður Eik.
Umsókn um þjónustu vettvangsteymis fer í flestum tilfellum í gegnum fagaðila, en einnig er hægt að sækja um stuðningsþjónustu á heimasíðu Akureyrarbæjar.
Frá þessu er sagt á akureyri.is