Vetrarbrautskráningarathöfn í fyrsta skipti við Háskólann á Akureyri
Laugardaginn 18. febrúar, kl. 14, verður í fyrsta skipti haldin athöfn fyrir brautskráða kandídata utan Háskólahátíðar í júní. Hún er ætluð kandídötum sem fengu brautskráningarpappíra sína í október 2022 og þeim sem brautskrást 15. febrúar 2023.
„Við vorum langt komin með að skipuleggja athöfnina í fyrra en þá var COVID-19 ennþá að stríða okkur. Háskólinn á Akureyri hefur alltaf brautskráð kandídata í október og febrúar en nú loksins fær þessi hópur brautskráningarathöfn sem vera ber,“ segir Eyjólfur Guðmundsson rektor.
Athöfnin fer fram með hefðbundnu sniði í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri og er kandídötum leyfilegt að hafa með sér ótakmarkaðan fjölda gesta. „Þetta er vissulega minni hópur en í júní og því getum við verið sveigjanlegri með gestafjöldann sem hver kandídat skráir með sér,“ segir Katrín Árnadóttir, forstöðumaður Markaðs- og kynningarmála og talsmaður undirbúningsnefndar.
Við athöfnina flytja þau Eyjólfur Guðmundsson rektor og Anna Rósa Friðriksdóttir, fulltrúi kandídata, ræður og Svavar Knútur mun sjá um tónlistina. Að athöfninni lokinni verður Íslandsklukkunni svo hringt enda hefur sú hefð skapast að hringja henni þegar háskólinn brautskráir.
„Við erum að brautskrá um 70 kandídata. Sumir hverjir fengu brautskráningarpappíra sína afhenta í október, en koma nú aftur til okkar til að fagna áfanganum. Það ætti alltaf að fagna öllum áföngum,“ segir Katrín að lokum.
Hægt verður að fylgjast með athöfninni í streymi.