Vertu Perfect eftir Pétur Guðjónsson verður sýning Leikfélags VMA í vetur Hlusta

Pétur Guðjónsson er höfundur Vertu Perfect og hann leikstýrir uppfærslunni einnig  Mynd vma.is
Pétur Guðjónsson er höfundur Vertu Perfect og hann leikstýrir uppfærslunni einnig Mynd vma.is

Leikfélag VMA setur í vetur upp leikritið Vertu Perfect eftir Pétur Guðjónsson í leikstjórn höfundar. Þetta verður heimsfrumsýning á verkinu en til stóð að setja það upp af Nemendafélagi Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki árið 2021 og var æfingaferli langt komið, í leikstjórn Péturs. En vegna Covid-faraldursins varð ekkert af því.

Leikritið gerist í skóla sem nefnist Fjölbreytti skólinn. Frá ýmsum hliðum er varpað ljósi á fjölbreytileikann í litrófi mannlífsins og þar með framhaldsskólanema. Fordómar koma við sögu, einnig umburðarlyndi og bara hvernig ungt fólk tekst á við lífið dag frá degi í iðandi graut upplýsingasamfélagsins.

Tónlist fléttast inn í sýninguna því í henni eru flutt þekkt popp- og rokklög með íslenskum textum.

Sem fyrr segir stóð til að Vertu Perfect yrði sett upp fyrir þremur árum á Sauðárkróki. Pétur segist hafa síðan yfirfarið verkið og gert á því töluverðar breytingar og það muni án vafa taka enn frekari breytingum þegar út í æfingaferlið kemur – endanleg útkoma markist af leikhópnum.

Fyrir helgina var auglýst eftir fólki í prufur til þess að taka þátt í uppfærslunni og segist Pétur vonast til þess að ferlið gangi hratt og örugglega fyrir sig þannig að unnt verði að ljúka skipan í hlutverk fyrir jólafrí. Ætlunin sé síðan að hefja æfingar af fullum krafti strax eftir áramót og ef allt gangi upp sé stefnan tekin á frumsýningu um miðjan febrúar.
Hér er hægt að sækja um að fara í prufur fyrir leiksýninguna.

Það verður ekki annað sagt en að Pétur sé að koma á fornar slóðir því hann var í mörg ár viðburðastjóri í VMA og lagði ómælt til félagslífsins í skólanum. Og heldur betur kom hann við sögu í leiklistinni í skólanum því hann hefur leikstýrt fjórum uppfærslum Leikfélags VMA; Tjaldinu eftir Hallgrím Helgason árið 2013, Bjart með köflum eftir Ólaf Hauk Símonarson árið 2016, Ávaxtakörfunni eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur árið 2018 og hinum víðfræga söngleik Grís (Grease) árið 2021.

Það er alltaf nóg að gera hjá Pétri Guðjónssyni. Hann á og rekur Draumaleikhúsið sem núna á haustönn hefur staðið fyrir leiklistarskóla og námskeiðum. Það allra nýjasta er síðan uppfærsla Draumaleikhússins 6.-8. desember nk. (sex sýningar) í Deiglunni í Listagilinu á verki sem heitir Elísabet Scrooge - alein um jólin. Í sýningunni leika nemendur í leiklistarskóla Draumaleikhússins núna á haustönn. Þetta er ný leikgerð Péturs og Stefaníu Elísabetar Hallbjörnsdóttur á sígildri sögu Charles Dickens um nískupúkann Scrooge. Hér eru upplýsingar og miðasala á leikritið.

Heimasíða VMA sagði fyrst frá

Nýjast