Verður ekkert að frétta?
Einkareknir fjölmiðlar á Íslandi eru í talsverðum vanda. Annars vegar hafa þeir þurft að keppa á auglýsingamarkaði við RÚV sem nýtur líka ríkisstuðnings. Hins vegar eru erlend stórfyrirtæki, eins og Facebook og Google, sífellt að taka til sín stærri sneið af auglýsingamarkaðnum. Þessi fyrirtæki greiða ekki skatta hér á landi og búa auk þess við mun hagstæðara skattaumhverfi í sínum heimalöndum.
Við þetta bætist svo kórónuveirukreppan sem hefur haft slæm áhrif á flestar atvinnugreinar. Það er því ljóst að þessi slæma staða er að miklu leyti á ábyrgð hins opinbera. Það er því eðlileg krafa að ríkið grípi til aðgerða til að bregðast við þessari stöðu. Í því felst enginn pilsfaldakapítalismi. Mennta- og menningarmálaráðherra lagði í fyrra fram frumvarp, til laga um stuðning við miðlana, sem náði ekki fram að ganga. Síðan þá hefur lítið spurst til langtímaaðgerða.
Stjórnvöld hafa víða vaxandi áhyggjur af falsfréttum og upplýsingaóreiðu. Eftir því sem almenningur aflar sér frekar upplýsinga með samfélagsmiðlum og leitarvélum, og minna í hefðbundnum fjölmiðlum, blasir við að hætta vex á því að fólk fái ekki bestu mögulegu upplýsingar.
Við þurfum að gera það upp við okkur hvort við viljum að almenningur hafi greiðan aðgang að öflugum og áreiðanlegum einkareknum fréttamiðlum. Fyrir mér er svarið augljóslega já. Ef stjórnvöld eru því sammála þurfa þau að grípa fljótt til aðgerða til að bregðast við þessari stöðu. Ef þau gera það ekki er hætt við því að það verði ekkert að frétta á Íslandi.
-Davíð Þorláksson. Höfundur er lögfræðingur og MBA.