6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Verðum að leggja okkur alla fram ef við ætlum okkur að sigra
Þegar handknattleiksdeild Þórs tilkynnti um ráðningu á Makedóníumanninum Stevce Alusevski sem þjálfara mfl. liðs félagsins í handbolta lyftu mjög margir brúnum því maðurinn er mjög vel þekktur í handboltaheiminum og þjóðargersemi nánast í heimalandi. Maðurinn er afar sigursæll og það er hreinlega alltof langt mál að telja upp alla hans titla og vegtyllur. Það að hann færi að þjálfa lið í næst efstu deild á Íslandi þótti með ólíkindum.
Nú þegar hefur hann komið Þórsliðinu i 4 liða úrslit um sæti í efstu deild. Keppnin hefst í dag með leik gegn Fjölni í Grafarvogi, því var ekki úr vegi að taka Alusevski tali og forvitnast um hann og hvernig honum líki lífið á Akureyri.
Segðu okkur hvað fékk þig til að koma til Íslands og fara að þjálfa lið í næsta efstu deild?
Það sem skipti öllu máli fyrir mig í því að ráða mig sem þjálfara hjá Þór voru viðræður mínar við stjórnarfólk í félaginu verkefnið sem þau lögðu á borð fyrir mig. Verkefni sem hljóðaði upp á að hefjast handa á byrjunarreit. Byggja upp öflugt lið sem getur staðið sig vel í fyrstu deild og í því sem á eftir kæmi. Ég sá félag sem á góða sögu, það hafi einnig mikil áhrif á þá ákvörðun mína að koma til Íslands.
Hvernig er íslenskur handbolti í samanburði við þann makedóníska og alþjóðlegan handbolta?
Þegar ég ber saman gæði handboltans hér á landi og í heimalandi mínu þá tel ég að þau séu á pari, þ.e. ef ég undanskil tvö bestu félagslið Makedóníu Vardar og Europharm Pelister.
Hvað landsliðin áhrærir þá álít ég það íslenska örlítið betra í augnablikinu, það makedónska er að fara í gegnum kynslóðaskipti um þessar mundir. Eins sýnir seinasta Evrópumót þetta.
Hvernig gengur þér að venjast landinu og hinum íslenska vetri, löngum ferðalögum í útileiki?
Í eðli mínu er ég maður sem nýt náttúrunnar og fegurðar hennar, Íslands er land sem býður upp á mikla náttúrufegurð og ég nýt hverrar stundar hér á Akureyri. Ég ferðast mikið í frítímanum og hef skoðað Demantshringinn og staði í honum mikið. Veturinn er mun lengri en ég á að venjast en sem betur fer var nýliðinn einn sá mildasti lengi. En vissulega eru löng ferðalög í leiki lýjandi fyrir leikmenn mína.
Hvernig er handboltinn hér í samanburði við það sem þú átt að venjast?
Svolítið erfið spurning, það er auðvitað mikill munur á gæðum leikmanna þegar þú ert að vinna hjá félagi sem er eitt það besta i Evrópu og svo hér með mikið af ungum leikmönnum. En það skiptir í raun ekki máli því ég sem þjálfari verð alltaf að leggja mig fram við að vinna af sama eldmóði og áhuga við að koma mínum áherslum á framfæri við leikmenn mína, ná framförum hjá þeim. Það er ekki alltaf auðvelt að ná því fram með mína ungu leikmenn, en ég held og já ég er fullviss um það að hjá Þór eru leikmenn sem eiga og munu láta til sín taka svo um munar i íslenskum handbolta á komandi árum.
Þú ert vanur að vinna með atvinnumönnum, hvernig er að vinna svo með ungum áhugamönnum í Þór?
Í upphafi var það satt best að segja mjög erfitt, viðhorf leikmanna til æfinga var mjög ólíkt því sem ég átti að venjast frá stórliðum í Makedóníu en eftir að hafa rætt málin nokkrum sinnum við leikmenn gjörbreyttist viðhorf þeirra og í dag vil ég meina að við séum komnir nokkuð mörgum skrefum hærra en við vorum í upphafi.
Er góður efniviður í liðinu?
Svo sannarlega liðið er vel statt núna, góð blanda af reynsluhestum og ungum efnilegum leikmönnum. Það er frábær andi í liðinu og ég er vongóður um framhaldið núna þegar dregur að úrslitum.
Þannig að þú ert vongóður fyrir úrslitakeppnina?
Ég verð að segja að við lékum mjög þétt undir lok mótsins vegna frestana sem við urðum fyrir í Kóvidfaraldrinum, en reyndum að nota þá leiki til að undirbúa okkur betur fyrir komandi úrslitakeppni. Við lékum 6 leiki á 20 dögum á þessu tímabili. Í ljósi þess hvernig við lékum og hvernig við höfum æft á þeim tíma er ég mjög bjartsýnn á komandi úrslitakeppni.
Hvað þarf liðið þitt að gera til þess að tryggja sér sæti í deild þeirra bestu?
Eins og ég hef sagt þá hefur liðið burði til þess að leika í efstu deild, við erum með hugan við leikinn gegn Fjölni í dag fimmtudag og tökum skref fyrir skref. Fjölnir og ÍR eru með sterk lið og við verðum að vera tilbúnir í mikla baráttu og að leggja okkur alla fram ef við ætlum okkur að sigra.
Telur þú að Þór muni eiga erindi í deild þeirra bestu? Ég vil vinna alla leiki sem þjálfari og er þess handviss að Þór á að vera í efstu deild,
Munt þú þjálfa Þór á næsta leiktimabili?
Ég hef fengið nokkur tilboð frá félögum utan Íslands en hef ekkert ákveðið í þeim efnum. Ég vil tala við mitt fólk í félaginu og í kjölfar þess tek ég ákvörðun. Lykilatriði í því hvort ég verði áfram hjá Þór er hvernig framtíðarsýn félagsins sé.