Verði ljós í Norðurþingi 1.desember
Samkomutakmarkanir hafa áhrif á líf okkar þessa dagana með einum eða öðrum hætti. Jólatréssamkomur eru fastur liður víða um land og vandséð hvernig hægt er að framkvæma þær með hefðbundnum hætti þetta árið.
En á tímum sem þessum eru allir lausnamiðaðir og sköpunargáfa mannfólksins brýst fram í okkur með það fyrir augum að þjappa okkur saman og gera þessa litlu hluti sem gera samfélög að þeim samheldnu einingum sem þau eru.
Norðurþing er stórt og víðfeðmt sveitarfélag. Íbúar þess eru rúmlega 3000 og má sem dæmi nefna að það tekur tæplega tvær klukkustundir að aka frá Húsavík til Raufarhafnar. Til samanburðar má nefna að það tekur um það bil jafn langan tíma að aka frá Húsavík og til Dalvíkur.
Fjarlægðin kemur þó ekki í veg fyrir að íbúar þjappi sér saman og haldist hönd í hönd með þeim leiðum sem færar eru.
Fjölskylduráð Norðurþings hefur ákveðið að setja upp viðburð í sveitarfélaginu sem allir geta tekið þátt í hvar sem þeir eru staddir og að sjálfsögðu er gjörningurinn framkvæmanlegur út um allan heim ef út í það er farið!
Viðburðurinn felst í því að sem flestir kveiki samtímis á jólaljósum hjá sér þann 1.desember klukkan 20.00.
Götulýsing verður slökkt um klukkan 19.50 þar sem því verður við komið til að auka á áhrifin og þá er tilvalið fyrir íbúa að slökkva á sínum skreytingum enda margir þegar búnir að skreyta með myndarlegum hætti.
Kirkjuklukkur á Húsavík, Kópaskeri og á Raufarhöfn munu hringja klukkan 20.00 til að gefa íbúum merki um að kveikja á jólaseríum og jólaljósum.
Dagskrá viðburðarins er sem hér segir:
Þriðjudagurinn 1.desember 2020
19.50 – Götulýsing slökkt og íbúar slökkva á jólaljósum hjá sér.
20.00 – Klukkur hringja og íbúar um allt sveitarfélagið og víðar kveikja sín ljós
Íbúar eru hvattir til að taka þátt og kveikja á jólaseríum, jólastjörnum, kertaljósi eða hvað sem það kann að vera og deila upplifun sinni með myllumerkinu #verðiljós á samfélagsmiðlum.
Einnig má nefna að fyrr um daginn munu leikskólabörn tendra ljós á jólatrjám sveitarfélagsins á skólatíma þar sem ekki er mögulegt að halda hefðbundnar jólatréssamkomur þetta árið.
Með þessum viðburði eru íbúar að sameinast í vilja og verki með því að kveikja ljós í mesta skammdeginu.
-F.h. Norðurþings
Kjartan Páll Þórarinsson
Íþrótta- og tómstundafulltrúi