Vegagerðin tekur kafla Hjalteyrarvegar af þjóðvegaskrá
Vegagerðin hefur tilkynnt Hörgársveit að breyting verði gerð á afmörkun Hjalteyrarvegar – 811 og verður hluti hans þar með felldur úr tölu þjóðvega og af vegaskrá. Allir vegir hér á landi eru skilgreindir eftir vegalögum.
Um er að ræða eins kílómetra langan kafla vegarins, milli Bakkavegar og Hafnarsvæðisins og er gert ráð fyrir að hann falli af vegaskrá frá og með 1. desember næstkomandi. Veghald hans verður frá og með þeim tíma ekki á ábyrgð Vegagerðarinnar. Sveitarstjórn Hörgársveitar hefur mótmælt þessum áformum
Rúna Ásmundsdóttir deildarstjóri tæknideildar á Norðursvæði segir að frá árinu 2018 hafi Hjalteyrarvegur sem fer í gegnum þéttbýlið á Hjalteyri verið skilgreindur sem tengivegur á vegaskrá á þeim forsendum að þar hafi verið starfrækt hvalaskoðun. Tengivegir geta m.a. legið að höfnum sem séu mikilvægar fyrir flutninga- og ferðaþjónustu samkvæmt skilgreiningu vegalaga.
Höfnin ekki lengur nýtt af hvalaskoðunarfyrirtækjum
Fram kemur í bréfi Vegagerðar til Hörgársveitar að núverandi endapunktur vegarins sé við hafnarsvæðið á Hjalteyri þar sem áður var starfrækt hvalaskoðun. Svo er ekki lengur og höfnin þar ekki nýtt af hvalaskoðunarfyrirtækjum. Á þeim grundvelli telur Vegagerðin að umræddur tengivegur eiga að enda við fyrstu þvergötu sem tilheyrir vegakerfi þéttbýlisins, skv. skilgreiningu vegalaga. Þau mörk séu vestan við vegamót við Bakkaveg og veginn að Hjalteyrarskóla.
„Það er engin hvalaskoðun starfrækt á Hjalteyri og engin gögn benda til annars en að miða eigi við að Hjalteyrarvegur skuli enda við fyrstu þvergötu þéttbýlis. Hjalteyrarvegur verður áfram tengivegur að þéttbýlinu en ekki í gegnum það,“ segir Rúna.
Hún segir að nú taki við samskipti við sveitarfélagið um ástand vegarins og hvort önnur hafntengd starfsemi sem mikilvæg sé fyrir flutninga og ferðaþjónustu sé til staðar á Hjalteyri. Sveitarfélaginu hefur verið gefinn kostur á að koma sínum athugasemdum á framfæri.