6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Vegagerðin hyggst fella hluta Hjalteyrarvegar af þjóðvegaskrá
Vegagerðin hefur tilkynnt sveitarstjórn Hörgársveitar um þau áform sín að fella niður vegarkafla Hjalteyrarvegar af þjóðvegaskrá. Um er að ræða um eins kílómetra langan kafla vegarins sem nær frá Bakkavegi og niður að hafnarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að þessi kafli vegarins falli af vegaskrá frá og með 1. desember 2024. Veghald hans verður frá og með þeim tíma ekki á ábyrgð Vegagerðarinnar.Sveitarstjórn Hörgársveitar hafnar alfarið þessum áformum Vegagerðarinnar
Unnið gegn nýtingu hafnarsvæðisins
Þar sem m.a. er um að ræða hafnarsvæði var við meðferð málsins kannað hver afstaða Hafnarsamlags Norðurlands væri. Þar kemur fram að vegna starfsemi og umferðar um athafnasvæði hafnarinnar sé mikilvægt að ávallt sé gott aðgengi að höfninni við öll skilyrði. Undir það tekur sveitarstjórn. Í verksmiðjuhúsunum austast og við enda Hjalteyrarvegar er nokkuð fjölbreytt og umfangsmikil starfsemi, menningar- og ferðatengd. Verksmiðjurnar eru nú sem fyrr hluti af atvinnusvæði sveitarfélagins.
„Verður að telja það ótækt að Vegagerðin miði við það eitt hvort tiltekin afmörkuð starfsemi eins og hvalaskoðun sé rekin frá svæðinu á einum tíma til annars, svo sem stofnunin vísar til í rökstuðning fyrir áformum sínum. Fullyrða má að ef Vegagerðin leggur af vetrarþjónustu og annað veghald að atvinnusvæðinu við Hjalteyri er með afgerandi hætti unnið gegn nýtingu svæðisins og komið varanlega í veg fyrir að unnt verði að byggja upp og viðhalda starfsemi á svæðinu á heilsársgrunni,“ segir í bókun sveitarstjórnar Hörgársveitar.
Ástand vegarins bágborið og viðhaldi ekki verið sinnt
Bent er á að á Hjalteyri er til að mynda í raun eina höfnin í sveitarfélaginu sem raunhæft er að byggð sé upp atvinnustarfsemi og athafnalíf í kringum. Þá er til þess að líta að úrbóta er þörf á Hjalteyrarvegi sem er í afar bágbornu ástandi og viðhaldi hefur ekki verið sinnt. „Er ótækt að Vegagerðin afsali sér eignarhaldi og ábyrgð á veginum og veghaldi í því ástandi sem hann er nú. Hvoru tveggja er að bundið slitlag er í mjög vondu ásigkomulagi og öryggisvegrið og frágangur er í óforsvaranlegu ástandi. Við blasir að við þessar aðstæður getur Vegagerðin vart hlaupist undan merkjum og þar með undan ábyrgð á ástandi vegarins, og um leið varpað þeirri ábyrgð yfir á sveitarfélagið.“