Veður- og sólfar sem og skaðvaldar geta ráðið hve mikil haustlitadýrðin er

Haustlitir á birki virðast koma hægt þetta árið og getur bæði spilað inn í faraldur skaðvalda og sva…
Haustlitir á birki virðast koma hægt þetta árið og getur bæði spilað inn í faraldur skaðvalda og svalt sumar. Myndir Pétur Halldórsson

„Haustlitir á birki virðast koma hægt þetta árið og getur bæði spilað inn í faraldur skaðvalda og svalt sumar,“ segir Pétur Halldórsson kynningarstjóri Lands og skóga. Birki á svæðinu er illa útleikið eftir tvo nýlega skaðvalda sem herjuðu sérstaklega illa á það hér um slóðir í sumar.

Annars vegar vegar er að sögn Péturs um að ræða birkikembu sem verpir í laufblöðin á vorin og lirfurnar éta laufblöðin innan frá fram á mitt sumar. Hins vegar sé birkiþéla, óskyld tegund sem hagi sér með sama hætti, nema hvað hún herjar seinni hluta sumars. „Þessi slæma útreið birkisins hér um slóðir veldur því að það fer ekki í almennilega haustlisti þetta árið heldur verður brúnleitt,“ segir hann.

Undirbúningur trjánna fyrir veturinn

„Haustlitirnir eru hluti af undirbúningi trjánna fyrir veturinn. Trén flytja tiltekin efni sem eru afurðir ljóstillífunar úr laufblöðunum í örugga geymslu annars staðar, til dæmis í rótunum. Við það hverfur græni liturinn en aðrir litir litrófsins koma í ljós. Það er bæði styttri dagur og hitasveiflur sem þessi starfsemi stýrist af. Litadýrðin fer mjög mikið eftir tíðarfari og mest verður hún líklega ef haustið kemur rólega með hæfilegum næturfrostum og trén eru heilbrigð,“ segir Pétur.

Haustlitir séu mismunandi frá einni trjá- eða runnategund til annarrar en það fari eftir erfðum og efnasamsetningu tegundanna. „Skemmtilegt dæmi er lerki, eina barrtegundin okkar sem fellir barrið. Ef haustið er milt nær lerkið að búa sig rólega undir veturinn og barrið verður gult. Ef snemma kólnar frýs barrið og verður brúnt á litinn. Með lengri sumrum og hlýnandi loftslagi gerist það nú æ oftar en áður að lerkið nær að verða gult og þá verða lerkiskógar mjög fallegir yfir að líta.“

Annað dæmi er hengibjörk. „Hér í bænum er þó nokkuð af hengibjörkum sem ættaðar eru frá norðanverðri Skandinavíu. Slík tré standa til dæmis við Þrastarlund á horni Mýrarvegar og Skógarlunds. Þau eru forrituð til að ganga snemma frá sér og eru því með fyrstu trjám til að skrýðast haustlitum og líka fyrst til að fella laufið. Það gulnar á undan íslenska birkinu meira að segja.“

Ýmsir þættir stýra litadýrðinni

Þegar trén fjarlægja blaðgrænuna úr laufblöðunum verða laufblöðin viðkvæmari fyrir áhrifum sólarljóssins og hefur það líka áhrif á litina. Það eru því ýmsir þættir sem stýra því hvernig haustlitirnir verða frá ári til árs. „Mismunandi veðurfar, sólfar og jafnvel utanaðkomandi þættir eins og skaðvaldar, ryðsveppir og fleira getur ráðið því hvort við fáum mikla haustlitadýrð eða ekki. Þetta haustið hefur verið svalt en þó ekki komið mjög hörð frost. Sólin hefur líka skinið töluvert þó að blautir og þungbúnir dagar hafi verið á milli,“ segir Pétur.

Gríðarmikið af reyniberjum

Liðið sumar var heldur svalt og því eru reyniberin lengi að ná fullum þroska. „Þrátt fyrir hretið í júní blómstruðu trjátegundir almennt mjög mikið á Akureyri og gríðarmikið er af reyniberjum á trjánum, jafnvel svo að greinar svigna undan þeim,“  segir Pétur.

Fuglar hafi annars konar sjón en mannfólkið og þó okkur sýnist reyniberin vera orðin fagur rauð sjá fuglarnir að þau eru enn ekki alveg tilbúin til átu. Sum tré sér farin að gefa fullþroskuð ber og fuglarnir byrjaðir að gæða sér á þeim, en fram undir þetta hafi þeir haft nóg í sig og á í móum og á berjarunnum.

Fuglar hafi annars konar sjón en mannfólkið og þó okkur sýnist reyniberin vera orðin fagur rauð sjá fuglarnir að þau eru enn ekki alveg tilbúin til átu

Nýjast