20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Vantraust og kerfishrun í málefnum fólks með ADHD
Aðalfundur ADHD samtakanna fta, haldinn 16. apríl 2024 skorar á Heilbrigðisráðherra að grípa nú þegar til aðgerða vegna þess kerfishruns sem blasir við í þjónustu hins opinbera við fólk með ADHD. Vegna aðgerðarleysis stjórnvalda á liðnum árum hafa biðlistar eftir greiningu og meðferð meira en tvöfaldast og nú bíða um fjögur þúsund einstaklingar eftir að komast í greiningarferli. Biðtími fullorðinna eftir ADHD greiningu og meðferð verður að óbreyttu vel á annan áratug hjá þeim sem nú hefja ferlið samkvæmt tilvísun Heilsugæslulæknis – vel á annan áratug!!
ADHD samtökin skora jafnframt á landlækni að hefja nú þegar ítarlega rannsókn á þeim órökstuddu fullyrðingum sem formaður Geðlæknafélags Íslands og fleiri hafa ítrekað sett fram um óvandaðar og tilefnislausar ADHD greiningar sálfræðinga og kollega sinna í geðlæknastétt og óhóflegar lyfjaávísanir lækna vegna ADHD. Slíkar dylgjur frá m.a. helsta talsmanni geðlækna á Íslandi, sem hingað til hefur ekki verið mótmælt opinberlega af einum einasta geðlækni, lækni eða sálfræðingi, hljóta að gefa tilefni til tafarlausra aðgerða af hálfu landlæknis, enda ber þessum starfsstéttum að vinna samkvæmt skýrum leiðbeiningum Embættis Landlæknis um greiningu og meðferð vegna ADHD og ber embættið jafnframt eftirlitsskildu með starfsemi heilbrigðisstarfsfólks.
Með þessum órökstuddu fullyrðinum hefur verið vegið mjög alvarlega að starfsheiðri þeirra sálfræðinga, geðlækna og lækna sem koma að þjónustu við fólk með ADHD á Íslandi og vandi þeirra tugþúsunda einstaklinga sem glíma við ADHD smættaður af þeim sem síst skildi. Málflutningur þessi hefur skapað mikið vantraust um verklag og vinnubrögð heilbrigðisstarfsfólks og á sama tíma stórskaðað málstað þeirra sem krefjast stórbættrar og sjálfsagðrar þjónustu hins opinbera fyrir fólk með ADHD. Landlæknir einn, getur og verður að bregðast við og endurvekja traust á þessari mikilvægu heilbrigðisþjónustu.
Samþykkt á aðalfundar ADHD samtakanna fta 16.4.2024