Upplýsingar+uppljóstranir=aðhald
Sú breyting sem orðið hefur á aðgengi almennings að upplýsingum með tilkomu internetsins dylst varla neinum. Á sekúndubroti er hægt að deila upplýsingum með allri heimsbyggðinni sem geta haft áhrif langt út fyrir veraldarvefinn. Eina leiðin fyrir okkur til að geta tekið upplýstar ákvarðanir, kallað eftir breytingum og tekið þátt í lýðræðinu er að fá allar upplýsingar upp á borðið. Þess vegna skiptir hið margumtalaða gagnsæi svo miklu máli, því lýðræðið deyr í myrkinu eins og segir í slagorði Washington Post.
Uppljóstranir mála sem ekki þola dagsljósið og áttu að fara leynt, hafa færst í vöxt undanfarna áratugi og er það vel. Þar má helst nefna Panamaskjölin sem afhjúpuðu auðugt fólk um allan heim, m.a. á Íslandi, sem neytir allra bragða til skattaundanskota og svíkst undan þeirri samfélagslegu skyldu sinni að taka fullan þátt í samfélaginu. Í þeim hópi má finna forystufólk í íslenskum stjórnmálum. Ekki má heldur gleyma skjölunum sem vörpuðu ljósi á viðurstyggilega framkomu eins stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins í Namibíu, sem bitnar harkalega á fátækri alþýðu þess lands.
Píratar hafa frá upphafi sett aðgang almennings að upplýsingum í öndvegi. Í því sambandi má nefna að laun og kostnaðargreiðslur þingmanna voru gerðar opinberar eftir að Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hafði margsinnis krafið þingforseta um þær. Þær má núna finna á vef Alþingis https://www.althingi.is/.
Vegna þessarar ýtni erum við margs vísari um greiðslur upp á tugi milljóna til þingmanna vegna aksturs, tvöfalds heimilishalds og annars kostnaðar. Einföld leit leiðir t.d. í ljós að tiltekinn þingmaður Norðausturkjördæmis, sem gegnir hlutverki formanns í stjórnmálaflokki, hefur frá 2013 til loka apríl á þessu ári þegið 12.650.716 króna vegna tvöfalds heimilishalds en á því leikur vafi hvort viðkomandi þingmaður hafi í raun haldið heimili á tveimur stöðum.
Hingað til hafa Alþingismenn haft fullt frelsi til að láta skattgreiðendur borga kostnað vegna kosningabaráttu en nú bregður svo við að það hefur verið bannað. Giskið nú, ágætu lesendur, hvers vegna tekið var fyrir það? Jú, líklegast vegna ýtni Pírata.
Þessi hugsjón okkar Pírata, þ.e. að fá allar upplýsingar upp á borðið, hefur rekið mig áfram í baráttu minni við kerfisfólkið hjá Akureyrarbæ, embættisfólk jafnt sem kjörna fulltrúa. Ég mun halda þessari baráttu minni áfram á vettvangi Alþingis, fái ég til þess brautargengi í haust, enda kemur öflugt aðhald í veg fyrir spillingu, fúsk og flumbrugang.
-Höfundur er oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi við kosningar til Alþingis 25. september nk.