Uppeldi á Íslandi í dagsins önn
Sigurbjörg Anna Þorleifsdóttir, stúdent í meistaranámi við Sálfræðideild, vinnur þessa dagana að meistaraverkefni sínu og rannsókn sem skoðar mismunandi uppeldisaðferðir í tengslum við hegðun barna á Íslandi. Dr. Hilal Sen, lektor við Sálfræðideild, er leiðbeinandi Sigurbjargar.
„Þegar ég ræddi málin við Hilal áttuðum við okkur á því að lítið væri um rannsóknir á þessu sviði á Íslandi. Það sem meira er, við uppgötvuðum að það eru fáir áreiðanlegir mælikvarðar til þess að meta mismunandi þætti í uppeldi. Þessi uppgötvun hvatti okkur til að framkvæma rannsóknina og vakti löngun til að skilja áhrif mismunandi uppeldisaðferða á hegðun barna á Íslandi,“ útskýrir Sigurbjörg um aðdragandann að því að hún ákvað að rannsaka viðfangsefnið.
Hilal Sen hefur áður unnið með Dr. Craig H. Hart frá Brigham Young háskóla í Bandaríkjunum sem er rannsakandi og sérfræðingur í uppeldisfræðum. Hilal bætir við: „Það er útbreidd vitneskja að uppeldi og hlutverk foreldra skipa veigamikið hlutverk í lífi barna en þrátt fyrir það vitum við lítið um aðferðir í uppeldi á Íslandi. Með því að rannsaka og greina til dæmis notkun á hlýju og stjórnun ásamt fleiri þáttum í uppeldi, vonumst við til að fá verðmæta innsýn sem gæti aukið skilning okkar á þroska barna í íslensku samhengi og greina hvort það sé mismunandi eftir svæðum.“
Þegar Hilal vann að doktorsgráðunni sinni aðstoðaði hún Dr. Hart í alþjóðlegri rannsókn sem bar saman uppeldisaðferðir í Bandaríkjunum og Tyrklandi. Dr. Hart hefur verið Hilal og Sigurbjörgu innan handar í undirbúningi rannsóknarinnar og mun vera áfram.
Rannsóknin innlegg í framtíðarstefnumótun
„Við vonumst til að niðurstöður rannsóknarinnar verði efniviður í tillögur til forráðafólks, kennara og stefnumótunaraðila. Við vonum einnig að rannsóknin verði ekki einungis til sem verðmæt innsýn sem dýpkar skilning á uppeldisaðferðum heldur muni hún einnig reynast gagnleg á breiðari vettvangi þroskasálfræði,“ segir Hilal aðspurð um væntingar til rannsóknarinnar. Hún bætir við að hún vonist til að niðurstöðurnar hvetji til frekari rannsókna á þessu sviði og ekki megi horfa framhjá því virði sem felst í því að prófa og þróa mælikvarða sem hægt er að nota í íslensku samhengi sem vöntun er á í dag.
Gögnum verður safnað í gegnum veflægan spurningalista sem inniheldur bæði lýðfræðispurningar ásamt spurningum um uppeldi og börn. Svörun á listanum tekur um 15 til 20 mínútur. Markmiðið er að safna nægum gögnum sem geta verið undirstaðan í rannsókn á uppeldisaðferðum á Íslandi og það er gríðarlega mikilvægt að fá svörun foreldra alls staðar að af landinu.
Vilt þú láta orðið ganga? Við kunnum að meta það ef þú ert til í að deila könnunni. Markmið okkar er að ná til íslenskumælandi forráðafólks til þess að tryggja úrtaksgerðina. Endilega deilið á samfélagsmiðlum, með vinum eða fólkinu í kringum ykkur.
Hér er slóðin til að deila: https://tinyurl.com/bdhzw988
Ert þú foreldri barns á aldrinum 3 til 12 ára?
Okkur langar að bjóða þér að taka þátt í rannsókninni okkar sem ber heitið „Uppeldi á Íslandi í dagsins önn“.
Við erum rannsakendur við Háskólann á Akureyri og erum að skoða uppeldishætti foreldra og félags- og tilfinningaþroska barna. Þú tekur könnun sem samanstendur af spurningum í gegnum snjalltæki að eigin vali. Spurningarnar snúa að þér, fjölskyldu þinni og hlutverki þínu sem foreldri. Það tekur á bilinu 15-20 mínútur að ljúka könnunni. Svör þín eru nafnlaus og fullum trúnaði er heitið.
Þú finnur könnunina hér: https://tinyurl.com/bdhzw988
Sigurbjörg Anna & Hilal Şen
Heimasíða: www.thecutelab.com