Uppbygging Akureyrarflugvallar

Njáll Trausti Friðbertsson
Njáll Trausti Friðbertsson

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar

Njáll

Í upphafi heimsfaraldursins  var fyrsti af fimm fjáraukum ársins 2020 samþykktur á Alþingi. Þar var ákveðið að fara í fjárfestingarátak upp á 18 milljarða til að bregðast við alvarlegum afleiðingum faraldursins á efnahag og atvinnulíf þjóðarinnar.  

Hluti af þessu átaki var að hefja framkvæmdir við stækkun flughlaðs og flugstöðvar á Akureyrarflugvelli. Í þessu skrefi var settur rúmur hálfur milljarður í verkefnið og gert ráð fyrir að klára fjármögnun þess þannig að það yrði hluti af fjárfestingarátaki ríkisstjórnar  fyrir árin 2021, 2022 og 2023 sem viðbragð við efnahagsáfallinu í tengslum við heimsfaraldurinn. Heildarkostnaður við að ljúka framkvæmdum við viðbyggingu flugstöðvarinnar og stækkun flughlaðs er rétt um tveir milljarðar króna.

Staða framkvæmda

Í lok mars á þessu ári var lokið við framkvæmdir í tengslum við neðra burðarlag nýs flughlaðs. GV Gröfur voru með þann verkþátt og kláruðu með prýði innan tímaáætlunar. Nú er unnið að því að bjóða út efra burðarlagið, malbikun og lagnir og miðað við að þeim verkþætti ljúki sumarið 2023.

Í desember var skrifað undir samning um stækkun flugstöðvarinnar og gert er ráð fyrir að þeim framkvæmdum ljúki einnig sumarið 2023. Þetta eru framkvæmdir sem eru sýnilegar almenningi.

Ný aðflug

Fleiru þarf þó að ljúka hið fyrsta, sem ekki er eins sýnilegt en ákaflega mikilvægt. Það snýr að nýrri tækni í aðflugi til norðurs, sem stuðla mun að bættu aðgengi og auknu öryggi. Það byggist á nýjum alþjóðlegum forskriftum sem íslenskir flugvellir þurfa að taka upp.

Horft er til þess að nýta sambærilega tækni og Færeyingar hafa gert í áratug vegna Vogaflugvallar, sem verulega hefur styrkt flug til Færeyja sem gerir það mögulegt að lenda í lægra skýjafari og verra skyggni en áður.

Uppsetning svipaðra aðfluga við Akureyrarflugvöll og á sérstaklega fyrir braut 01, það er þegar lent er til norðurs, mun styrkja nýtingarstuðul vallarins.

Spennandi tímar framundan

Hér er líka rétt að líta til þess að um er að ræða mikilvægar framkvæmdir við uppbyggingu alþjóðaflugvallakerfis á Íslandi. Hér er unnið að því að efla varaflugvallakerfi landsins og í því sambandi er einnig rétt að líta til mikilvægi Egilsstaða- og Reykjavíkurflugvallar í því samhengi og uppbyggingar og styrkingar þeirra í tengslum við það mikilvæga hlutverk.

Spennandi tímar eru framundan í ferðaþjónustu á Íslandi. Ekki síst fyrir okkur landsbyggðafólk, nú þegar Niceair opnar nýja glugga út í heim á komandi misserum.

Ég er mjög bjartsýnn fyrir hönd íslenskrar ferðaþjónustu og þá sérstaklega á landsbyggðinni nú þegar við sjáum fyrir endann á heimsfaraldrinum. Við höfum góða vöru að bjóða þar sem ferðamenn geta ferðast um landið, sótt í fámennið og notið kyrrðar í íslenskri náttúru. Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan.

Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

 

Nýjast