Ungt vísindafólk kannar heilann og heilastarfsemina í gegnum leik
Framtíðin byrjar í Háskólanum á Akureyri og það var svo sannarlega líf og fjör í Hátíðarsal háskólans þegar 45 nemendur í 4. bekk í Brekkuskóla mættu í lotu hjá stúdentum í námskeiðinu Hugræn taugavísindi sem kennt er við Sálfræðideild.
Yvonne Höller, prófessor við Sálfræðideild, átti hugmyndina að því að hafa opinn vísindadag fyrir grunnskólanemendur. Stúdentum á öðru og þriðja ári í sálfræði var skipt í hópa og fengu það verkefni að búa til og undirbúa barnvæn verkefni og gagnvirka leiki fyrir grunnskólanemendurna til þess að sýna þeim hvernig heilinn virkar. Markmiðið með deginum var að sýna unga fólkinu hversu skemmtileg og spennandi taugavísindi eru.
Hver stúdentahópur var með eina stöð og fóru grunnskólanemarnir á hverja stöð þar sem meðal annars var í boði að búa til taugafrumu og heila úr leir, heilabingó þar sem saga var lesin með orðum sem tengjast heila, skynjunarleikur þar sem börnin voru látin skynja snertingar á mismunandi stöðum húðarinnar og píluborð með skemmtilegum staðreyndum um heilann svo fátt eitt sé nefnt.
Eftir hverja stöð fengu börnin límmiða/stimpil/broskarl á bingóblað og þegar þau voru búin með allar stöðvarnar og voru búin að fylla út spjöldin fengu þau gjöf frá HA, penna, minnisblokk og nammi.
„Það er yndislegt að geta boðið grunnskólabörnum að upplifa gleðina í vísindum í gegnum leik. Þau voru öll mjög ánægð með dagskrána og lærðu heilmikið,“ sagði Lada Zelinski doktorsnemi og umsjónarmaður verkefnisins.