27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Um tugur Úkraínumanna komnir til Akureyrar
Um það bil tíu flóttamenn frá Úkraínu eru komnir til Akureyrar og er von á fleirum á næstu dögum. Það er RÚV sem greinir frá þessu og þar kemur fram að skortur á íbúðarhúsnæði sé helsta áskorunin við að taka á móti fólki á flótta.
Haft er eftir Önnu Marit Níelsdóttur, forstöðumanni félagsþjónustusviðs Akureyrarbæjar, að bæjaryfirvöld hafi strax lýst yfir vilja til að fá flóttafólk frá Úkraínu til bæjarins. Bæjarfélagið hafi áður tekið á móti stórum hópum flóttafólks og hafi af því góða reynslu.
Anna Marit segir við fréttastofu RÚV að flestir þeirra sem komnir hafi tengsl við Akureyri og tekur fram að það fólk sé einnig komið í Eyjafjarðarsveit. „Það er eiginlega ómögulegt að segja hvað von er á mörgum hingað en ég veit að á næstu dögum eru að koma alla vega tvær fjölskyldur í viðbót,“ segir hún við RÚV.
Jafnframt segir hún að það sé ekkert viðmið til staðar um hversu mörgum flóttamönnum sveitarfélagið geti tekið á móti. Það muni ráðast af húsnæðisaðstæðum.
„Við erum í mestu vandræðum með húsnæði. Það er bara skortur á húsnæði á Akureyri. Ef að stríðið dregst á langinn þá verður enn meiri húsnæðisskortur en nú þegar er og maður verður að vona að það verði drifið í að byggja.“
Akureyrarbær er eitt af fimm sveitarfélögum sem taka þátt í samræmdri móttöku flóttafólks.