Um 2550 nemendur í grunnskólum Akureyrarbæjar
Grunnskólar Akureyrarbæjar hófu starfsemi að nýju eftir sumarleyfi í dag, fimmtudaginn 22. ágúst. Nemendur í öllum grunnskólum eru alls um það bil 2550 talsins og þar af eru 213 börn að hefja sína skólagöngu í 1. bekk.
Ida Eyland Forstöðumaður skrifstofu fræðslu- og lýðheilsusviðs segir að svipaður fjöldi nemenda sé nú í grunnskólum bæjarins og var á síðastliðnu hausti. Fjölmennasti grunnskólinn á Akureyri er Lundaskóli með 475 nemendur og sá fámennasti er í Hrísey en þar verða nemendur 14 talsins í vetur.
Símareglur til að skapa vinnufrið
Nýjar símareglur í grunnskólum Akureyrarbæjar taka gildi nú í upphafi nýs skólaárs. Starfshópur sem skipaður var í nóvember í fyrra lagði nýjar símareglur fram eftir að hafa skoðað kosti og galla samræmdra símareglna og símafrís í grunnskólum.
Sáttmáli um símareglur hefur fyrst og fremst þann tilgang að skapa góðan vinnufrið í skólum, stuðla að bættri einbeitingu, auknum félagslegum samskiptum og vellíðan nemenda og starfsfólks skóla.
Samkvæmt sáttmálanum skulu nemendur í grunnskólum Akureyrarbæjar ekki nota síma á skólatíma, hvorki í skólanum né á skólalóð. Leiðin milli skóla og íþróttamannvirkja telst til skólalóðar. Þetta á einnig við önnur snjalltæki sem trufla kennslu og einbeitingu eins og til dæmis snjallúr. Nemendum á unglingastigi verður heimilt að nota síma í frímínútum á skilgreindum svæðum.