Tónninn í þögninni.
Fyrir nokkrum árum kom fram hugtakið núvitund. Líkt og Íslendinga er siður helltum við okkur á kaf í málið og núvitund varð nýjasti plásturinn. Bjargráðið við óhófinu sem við höfum tileinkað okkur og kapphlaupinu um allt og ekkert. Óhóf kostar mikla peninga sem kalla á óhóflega vinnu og óhóf leiðir af sér heilsubrest, ekki síst andlega. Núvitund var lausnin við vanlíðan okkar svo við skelltum henni ofaná allt hitt.
Skárum ekkert niður og héldum keppninni áfram.
Súrdeigsbakstur, gæludýr, hannyrðir og pelagonía í leirpotti urðu skyndilega helstu keppnisgreinarnar.
Það er í sjálfu sér fallegt en þó bæði skondið og sorglegt.
Þetta var gert af meiri tískuþörf en innri þörf og vandinn fór ekkert. Það er eins og gömul hljóðlát og hversdagsleg iðja þurfi að vera í tísku svo við kunnum að meta hana. Að una glaður við sitt og vera sjálfum sér nógur er eitthvað sem við höfum gleymt í allsnægtum og samanburði nútímans. Hæglætið getur aldrei komið annars staðar frá en innanfrá og á upphaf og endi hjá okkur sjálfum. Við þurfum ekki að kaupa það dýru verði eða eltast við það út í bæ. Við þurfum sjálf að sá fræi hæglætis í hjörtum okkar og vilja af alvöru breyta hegðun okkar.
Það gæti verið farsælt að byrja einfaldlega á því heima hjá sér - ókeypis.
Mögulega hefur efnisleg velmegun okkar vaxið hraðar en við höfum ráðið við. Við erum samt engir asnar og vitum vel að hraðinn fer illa með okkur, en líklega er okkar mesta böl að geta aldrei viðurkennt þegar við höfum villst af leið. Í stað þess að lækka undir pottinum þegar uppúr sýður, fergjum við pottlokið og reynum að redda málunum með nýju tískutrixi. Að lokum brennur allt og kulnun heitir nú nýjasta ógnin. Líklega er komið að því að við hreinlega lærum að gera ekki neitt. Eyðum minni peningum og getum þá unnið minna. Lærum að láta okkur leiðast því þá er hugsanlegt að okkur detti eitthvað sjálfsprottið og skapandi í hug.
Nú eru að koma jól og margir á hlaupum. Auglýsingarnar espa okkur upp í að mæta allsstaðar og helst að vera á mörgum stöðum í einu. Sjálf hef ég upplifað vanlíðan og fullkomnunar áráttu og fannst þegar ég var ung að allt sem ég gerði yrði að vera framúrskarandi og reyndi stöðugt að gera öllum til hæfis. Ég var hrædd við að vera hallærisleg og fá umtal - en svo áttaði ég mig á að ég hafði sjálf búið mér til einhver fáranleg viðmið og ruglið var allt í hausnum á sjálfri mér. Ég var með lélega sjálfsmynd.
Besta núvitundarstund sem við fjölskyldan höfum þróað með okkur undanfarin ár er á aðfangadag á tímabilinu klukkan 17:30 – 18:40. Áður en þögnin byrjar á rás 1 erum við búin að kveikja á gamla útvarpinu, slökkva undir öllu á eldavélinni og slökkva mörg rafljós þannig að hálf rökkur er frá jólaljósum. Komum okkur svo vel fyrir undir ullarteppum, liggjandi í sófunum og hægindastólum. Við tölum ekki saman, það er slökkt á símunum og í húsinu ríkir alger þögn. Svo byrja klukkurnar að hringja inn jólin og það er engin lygi, við finnum öll að allt verður heilagt og hamstrahjólið stoppar.
Við höfum engar áhyggjur af því hvort steikin verður of þurr eða sósan mistakist. Það höfum við áður fyrirbyggt. Við liggjum grafkyrr milli svefns og vöku þar til messan er að renna sitt skeið. Þetta kann að hljóma væmið og eins og við séum voðalega fullkomin. Nei, við erum bara venjulegt fólk sem stundum blótar, hugsar ljótt og kaupir of mikið af drasli.
Ég segi þó ekki að það er til bóta ef maður trúir á eitthvað æðra. Þá verður tónninn í þögninni skýrari. Þarna gerist mikið undur sem ekki er hægt að lýsa með orðum. Megi nýtt ár og rísandi sól færa okkur meira hæglæti og nægjusemi, meira þakklæti og fullt fang friðar og kærleika.
Gleðileg jól.
Svanhildur Daníelsdóttir