Tónlist, gleði og góðgerðarmál í Íþróttahöllinni á Húsavík
Það er komið að árlegum jólatónleikum Tónasmiðjunnar, sem verða haldnir í Íþróttahöllinni á Húsavík þann 15. desember klukkan 16:00. Þetta er einstakt tækifæri til að komast í sannkallað jólaskap með fjölbreyttu úrvali af vinsælum og sígildum jólalögum, flutt af hæfileikaríkum tónlistarmönnum á öllum aldri.
Tónasmiðjan á Húsavík er vel þekkt meðal bæjarbúa fyrir sitt skapandi starf fyrir fólk á öllum aldri sem hefur áhuga á tómstundum, tónlist, söng og menningu. Elvar Bragason hefur starfrækt Tónasmiðjuna í sjö ár ásamt frænku sinni, Hörpu Steingrímsdóttur, og staðið fyrir fjölda stórra tónleikasýninga á ári hverju þar sem ágóði rennur til ýmissa velgjörðamála.
Flytjendur á öllum aldri
Elvar segir að listafólk Tónasmiðjunnar sé á öllum aldri og allir séu að verða mjög spenntir að koma fram. Meðfylgjandi myndir voru teknar á æfingu í vikunni og þar vantaði sko ekki kraftinn. Flytjendur voru vel samkeyrðir enda margir búnir að vera með Tónasmiðjunni frá upphafi. Elvar lofar mikilli fjölbreytni á efnisskránni: „Þetta er að verða svo magnað, þetta er orðið svo þétt og flott,“ segir Elvar hughrifinn og bætir við að metnaðurinn í öllu starfi Tónasmiðjunnar aukist bara ár frá ári.
Jólagestirnir í ár
Á tónleikunum munu koma fram stór hljómsveit, bakraddir, kór, einsöngvarar og dansarar, sem saman skapa ógleymanlega upplifun fyrir alla fjölskylduna. Meðal heiðursgesta eru Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir og Pálmi Gunnarsson, sem munu heilla áhorfendur með sínum einstaka flutningi. Sérstakir gestir eru Karlakórinn Hreimur og dansarar frá STEPS Dancecenter, sem munu bæta við hátíðlega stemningu með sínum frábæru frammistöðum.
Miðaverð er aðeins 3900 krónur, og ágóði af sýningunni rennur til Velferðarsjóðs Þingeyinga. Þetta er því ekki aðeins frábært tækifæri til að njóta tónlistar og dans, heldur einnig til að styðja við gott málefni í samfélaginu.
„Við hvetjum alla til að mæta og taka þátt í þessari hátíðlegu stund, þar sem tónlistin og gleðin munu fylla hjörtu okkar og koma okkur í jólaskap. Það er fátt betra en að njóta aðventunnar með fjölskyldu og vinum, og hvað er betra en að gera það með fallegri tónlist og skemmtilegum flutningi,“ segir Elvar og bætir við að lokum:
„Komdu og upplifðu jólin með okkur í Íþróttahöllinni á Húsavík þann 15. desember. Við hlökkum til að sjá þig þar."