13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Tónkvíslin, söngkeppni Framhaldsskólans á Laugum fer fram í kvöld
Tónkvíslin, söngkeppni Framhaldsskólans á Laugum er meðal stærstu menningarviðburða á Norðausturlandi. Tónkvíslin verður haldin í 18. skipti þann 16. nóvember næstkomandi.
Sigurvegari keppninnar keppir fyrir hönd skólans í söngkeppni framhaldsskólanna, þar sem margar stjörnur hafa einmitt stigið sín fyrstu skref. Þar má meðal annars nefna Birgittu Haukdal sem flestum landsmönnum er vel kunn.
Ísold Assa Guðmundsdóttir framkvæmdarstjóri Tónkvíslarinnar segir að samhliða keppninni sé einnig haldin grunnskólakeppni þar sem nemendum grunnskóla af svæðinu býðst að stíga á svið með framhaldsskólanemunum og keppa um fyrsta til þriðja sæti í úrslitum keppninnar.
Mikill undirbúningur og allir taka þátt
„Það fer mikil vinna og tími fer í undirbúning keppninnar, og er því árlega skipuð ný framkvæmdarstjórn af nemendum,“ segir hún en í ár eru það nemendurnir Ísold Assa og Huginn Ási sem sjá um framkvæmdastjórn keppninnar.
Fagmenn eru fengnir til þess að sjá um upptöku og útsendingu, ásamt því að setja upp ljós- og hljóðkerfi með aðstoð frá nemendum skólans. Allir nemendur skólans koma síðan að uppsetningu keppninnar á einn eða annan hátt með því að skrá sig í hópa eftir áhugasviði hvers og eins.
Þau eru mörg handtökin
Hægt að kaupa streymi
Ísold Assa segir að nú í ár verði hægt að kaupa streymi á beina útsendingu á keppnina í gegnum „Livey“ og verður vefslóð á streymið auglýst síðar. „Árlega höfum við verið að fá á staðinn um 300 - 400 áhorfendur ,“ segir Sólborg sem hvetur alla til að koma að Laugum í kvöld „til að upplifa og sjá þá miklu og frábæru vinnu sem nemendur hafa á sig lagt til þess að keppnin geti orðið að veruleika.“
Tónkvíslin, söngkeppni Framhaldsskólans á Laugum er meðal stærstu menningarviðburða á Norðausturlandi.