27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Töfra-Álfurinn mættur í Eyjafjörðinn
Fjöldi fólks á öllum aldri hefur tekið að sér að selja Töfra-Álf SÁÁ í Eyjafirði næstu daga. Þar á meðal má nefna dugnaðarforka úr KA og sundfélaginu Óðni, svo og tíundu bekkinga í Glerárskóla og Oddeyrarskóla. Utan Akureyrar hafa Sober riders tekið að sér að vera á ferðinni með Álfinn. Á Dalvík sjá félagar úr sundfélaginu Rán um Álfasöluna. Líkt og áður stýrir Anna Hildur Guðmundsdóttir sölunni í Eyjafirði, en hún var kosin formaður SÁÁ fyrir skömmu.
Sölufólkið verður á ferð á fjölförnum stöðum á fram á næstu helgi, ekki síst verslunum og bensínstöðvum.
Þetta er í 34. skipti sem SÁÁ stendur að Álfasölunni, sem er ein mikilvægasta fjáröflunarleið samtakanna.
Í tilkynningu frá SÁÁ segir að í þetta sinn sé Álfurinn í gervi töframanns, sem sé afar viðeigandi í ljósi þess að Álfasala SÁÁ hefur stuðlað að töfrum í lífi þeirra þúsunda sem hafa komið í meðferð hjá samtökunum gegnum árin. Að ekki sé talað um töfrana fyrir aðstandendur, vini, vinnuveitendur og þjóðfélagið allt.
Tekjurnar af Álfasölunni hafa einkum verið nýttar til að byggja upp rými og þjónustu fyrir ungt fólk og aðstandendur alkóhólista.
"Sú mikla uppbygging sem SÁÁ hefur staðið fyrir í tæp 45 ár byggir alfarið á fjárhagslegum stuðningi landsmanna, sem hafa ávallt tekið vel í fjáraflanir samtakanna, ekki síst Álfinn," segir í tilkynningunni.
Í heildina munu um 800 manns bjóða Töfra-Álfinn til sölu næstu daga á fjölförnum stöðum um land allt.