Tilhlökkun, gleði og spenna í loftinu

Fjalar Úlfarsson formaður Andrésar andar leikanna á góðri stund í Hlíðarfjalli með dóttur sinni Tinn…
Fjalar Úlfarsson formaður Andrésar andar leikanna á góðri stund í Hlíðarfjalli með dóttur sinni Tinnu Karítas. Undirbúningur er á lokastigi, þátttakendur verða um 800 hundruð og þeim fylgir stór hópur fararstjóra, þjálfarar og foreldrar þannig að gera má ráð fyrir að líflegt verði á Akureyri meðan á leikunum stendur.

„Við hlökkum mikið til að halda leikana, það er mikil gleði í loftinu og spenna eftir tveggja ára bið,“ segir Fjalar Úlfarsson formaður Andrésarnefndar Skíðafélags Akureyrar um Andrésar Andar leikana sem fram fara í Hlíðarfjalli dagana 21. til 23. apríl næstkomandi. Um er að ræða stærsta skíðamót landsins með um eitt þúsund keppendum en þeim fylgja þjálfarar, farastjórar, foreldrar og fjölskyldur, þannig að gera má ráð fyrir að allt að þrjú þúsund manns sæki leikanna.

Andrésarleikarnir féllu niður síðastliðin tvö ár vegna kórónuveirunni, þannig að ekki er að undra að unga skíðamenn þyrsti í að sækja þessa vinsælu leika nú í ár. „Undirbúningur stendur sem hæst, þetta fer allt að smella hjá okkur en vissulega fylgir því mikil vinna að undirbúa svo umfangsmikið íþróttamót og Andrésarleikarnir eru,“ segir Fjalar.

Andrés

Hætt við daginn fyrir leikana

Til stóð alveg fram á síðustu stundu í fyrra að halda leikana, en þeir voru blásnir af nánast korteri áður en þeir áttu að hefjast. „Við vorum með fund á þriðjudagskvöld, en jafnan byrja leikarnir með skrúðgöngu á miðvikudagskvöld. Staðan var tvísýn varðandi veiruna á þessum tíma og í samráði við sóttvarnaryfirvöld var ákveðið að hætta við  þá daginn fyrir leikana. Það var allt klárt þannig að þetta var mjög gremjulegt en rétt ákvörðun í ljósi aðstæðna,“ segir hann.

Skráðir keppendur fengu í sárabætur sendan Andrésarpoka með alls kyns varningi. Alls voru í fyrra skráðir 963 keppendur til leiks og hafa að sögn Fjalars aldrei verið fleiri í sögu sem nær til ársins 1975 þegar fyrstu leikarnir fóru fram í Hlíðarfjalli. „Styrktaraðilar mótsins stóðu við bakið á okkur og gerðu okkur kleift að senda öllum smá glaðning.“

Allir boðnir og búnir að hjálpa

Fjalar segir að undirbúningur hafi gengið vel og nú séu lokametrarnir framundan. „Það er góður gangur í skráningum og útlit fyrir góða þátttöku, það lofar allt góðu og við bíðum eftirvæntingarfull eftir að leikarnir hefjist,“ segir hann.

Ríflega 100 manns vinna við leikana meðan á þeim stendur, sjálfboðaliðar frá Skíðafélaginu og eins starfsmenn Hlíðarfjalls. „Skíðafélag Akureyrar á virkilega góðan mannauð, allir boðnir og búnir að hjálpa til og margir sem leggja virkilega mikið á sig til að Andrésarleikarnir fari fram eins og best verður á kosið.“

Enn er þokkalega mikill snjór í Hlíðarfjalli og líkur á að töluvert verði enn eftir þegar kemur fram í apríl. „Við höfum ekki lent í vandræðum vegna snjóleysis frá því snjóframleiðslukerfið var tekið í notkun um árið, eftir það hefur aldrei verið skortur á snjó,“ segir Fjalar.

Nýjast