27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
„Til háborinnar skammar að hafa ekki upplýsingamiðstöð á Akureyri“
mth@vikubladid.is
„Það er til háborinnar skammar að ekki sé starfandi upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn á Akureyri,“ segir Sölvi Antonsson veitingamaður á Garún í Menningarhúsinu Hofi og fleiri stöðum. Hann sótti um styrk frá Akureyrarbæ til að setja slíka upplýsingamiðstöð upp í Hofi gegn því að bæjarfélagið veitti styrk á móti fyrir 3 til 4 stöðugildi. Bæjarráð hafnaði beiðni hans og segir Sölvi að engin útskýringa á þeirri höfnun hafi fylgt með.
„Ég er sjálfur ekki neitt sár yfir að fá ekki styrkinn, aðalatriðið er að þessi þjónusta sé í boði í bænum,“ segir Sölvi. Hann bendir á að mikill fjöldi ferðamanna sæki Akureyri heim allt árið um kring og gera megi ráð fyrir að þeim fari frekar fjölgandi en hitt. „Það er mikil umferð um Hof, þar eru salerni fyrir almenning, farþegar af skemmtiferðaskipum ganga hjá og strætó stoppar fyrir utan. Mitt starfsfólk er stöðugt að svara fyrirspurnum um eitt og annað, færð á vegum, göngustíga, hvar söfnin séu, um heilbrigðisþjónustu og bara hvað sem er. Ég er farinn að vísa fólki út í Ráðhús með sínar spurningar. Það er örugglega ekki vinsælt en við höfum annað að gera en svara fyrirspurnum frá ferðamönnum.“
Hann segir ferðamenn vana því að geta leiða á upplýsingamiðstöðvar með spurningar sínar, en nú sé fólk bara að spyrjast fyrir hér og hvar í bænum. „Ég var tilbúinn að setja slíka upplýsingamiðstöð upp í Hofi og hafa hana opna frá 8 á morgnana til 20 á kvöldin alla daga vikunnar en beiðni um að styrkja þá starfsemi sem nemur nokkrum stöðugildum var hafnað. Ég fékk engar skýringar á af hverju þessu var hafnað, en hef heyrt áform séu uppi um að setja upp einhverja standa og skjái þar sem fólk eigi að leita upplýsinga,“ segir Sölvi.