Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri: Guðrún Hadda Bjarnadóttir
Þriðjudaginn 9. apríl kl. 17-17.40 heldur Guðrún Hadda Bjarnadóttir, handverks- og myndlistarkona, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Dyngjan – listhús. Aðgangur er ókeypis.
Í fyrirlestrinum mun Hadda fjalla um Dyngjuna-listhús, galleríið, vinnustofuna og umhverfið. Listhúsið er staðsett að heimili hennar, Fífilbrekku í Eyjafjarðarsveit, og býður upp á listmuni, fræðslu og upplifun. Þar er vinnustofa og sölugallerý sem er opið öllum flesta daga ársins. Áhugasviðið er allt sem tengist sköpun og náttúru og hún vinnur gjarnan með efni úr sínu nánasta umhverfi. Málverkin og vefnaðurinn eru þó unnin úr innfluttu efni.
Guðrún Hadda Bjarnadóttir lauk námi frá málunardeild Myndlistaskólans á Akureyri 1991 og tók kennarapróf frá Listaháskóla Íslands 2007. Hún nam vefnað í Lýðháskólanum í Eskilstuna í Svíþjóð 1981-83 og við listadeild sama skóla 1987. Áður hafði hún útskrifast sem þroskaþjálfi og unnið við það starf um árabil. Hadda hefur sett upp fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum, haldið námskeið og kennt víða, aðallega handmennt en einnig myndlist. Þá hefur hún tekið að sér sýningastjórn og haldið fyrirlestra. Hún rak gallerí ásamt öðrum í Svíþjóð 1984-1987, en er heim var komið rak hún Grófina – opna vinnustofu og listhús í Listagilinu á Akureyri 1992-1995 og síðar Samlagið – listhús í Listagilinu 1997-2005.