„Þetta mun gjörbreyta öllu og færa okkur nær nútímanum“

Grímur Kárason slökkviliðsstjóri Norðurþings og Dagný Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ólafs Gíslason…
Grímur Kárason slökkviliðsstjóri Norðurþings og Dagný Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ólafs Gíslasonar & co, handsala samninginn ásamt slökkviliðsstjórum fjögurra annarra sveitarfélaga. Mynd/epe

Eins og greint hefur verið frá samþykkti sveitarstjórn Norðurþings nýverið viðauka til 3 ára fjárhagsáætlunar vegna kaupa á nýrri slökkvibifreið fyrir slökkvilið sveitarfélagsins.

Norðurþing tók þátt í útboði á vegum Ríkiskaupa ásamt sex öðrum sveitarfélögum vegna kaupa á slökkvibifreið. Eitt tilboð barst en það var frá Ólafi Gíslasyni & co fyrir hönd bjóðanda sem er Wiss í Póllandi. Bíllin sem um ræðir kostar 91 milljón króna og verður að sögn Gríms Kárasonar slökkviliðsstjóra Norðurþings afhentur síðari hluta næsta árs.

Skrifað var undir samninga vegna kaupanna í slökkvistöðinni á Húsavík um sl. helgi en þar voru fulltrúar fimm sveitarfélaga ásamt slökkviliðsstjórum saman komin.

Segir kaupin nauðsynleg

Grímur Kárason segist fagna þessum kaupum enda sé komin tími á endurnýjun á búnaði slökkviliðsins í Norðurþingi.

„Við erum í dag náttúrlega bara með leigubíl, sem við fengum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Með þessum kaupum fáum við bíl með meiri afkastagetu en sá sem við erum með í höndunum núna. Þetta mun gjörbreyta öllu og færa okkur nær nútímanum aftur í þessu,“ segir Grímur.  

Hann bendir m.a. á að nýji bíllin sé búin öllum þeim útbúnaði sem slökkviliðið á svæðinu þurfi til að mæta þeirri áhættu sem er í sveitarfélaginu.

„Þessi bíll er t.d. með one7 froðukerfi sem er eina kerfið sem er vottað fyrir rafmagnselda. Við erum með stórt spennuvirki hér á svæðinu og háspennuvirki hjá PCC á Bakka. Þetta kerfi sem við fáum er vottað fyrir 100.000 volt. Það er einn af stóru plúsunum í þessu en svo er auðvitað bara öflug slökkvidæla fyrir vatn í bílnum. Þetta er einfaldlega vel útbúinn nútímalegur bíll,“ útskýrir hann og bendir á að í dag sé á mörkunum að slökkviliðið standist lögbundnar kröfur.

„Við þurfum að geta staðið skil á ákveðinni dælugetu miðað við þá áhættu sem er á svæðinu og við erum algjörlega á grensunni varðandi það með þeim búnaði sem við erum með. Þetta er gott skref inn í framtíðina því við erum með öll okkar tæki fjörgömul. Bíllin sem þessi er að leysa af hólmi er yfir 30 ára gamall,“ segir Grímur.

Nýjast