Þetta er ekkert grín og það kostar - Aðalsteinn Svanur Sigfússon skrifar
Auðvitað eigum við sem eigum heima á höfuðborgarsvæðinu að hafa miklu hærri laun en fólk annars staðar á landinu. Við erum framvarðarsveitin sem heimurinn horfir til. Bara svona til að nefna örfá dæmi:
– o –
Vitið þið þarna úti í óbyggðunum hvað það kostar að fara í leikhús þó ekki væri nema svona tvisvar í mánuði? Og á tónleika hjá Sinfó í Hörpu? Meðan ykkur nægir að horfa á Landann aftur og aftur.
– o –
Við þurfum að eiga rafmagnsbíl og rafmagnshjól, vélsleða og crossara og seglskútu og rafskútu, sexhjól og fjórhjól, fellihýsi og hjólhýsi – að ég minnist nú ekki á sumarbústaðinn – til að komast í snertingu við náttúruna. Þið röltið bara í rólegheitunum út í hana.
– o –
Vitið þið hvað það kostar okkur að halda uppi öllum restauröntunum og kaffihúsunum? Það er ekki gefið skal ég segja ykkur sem farið bara í kaffiuppáhelling hvert til annars til að fárast yfir umferðinni, glæpunum og rigningunni í Reykjavík.
– o –
Vitið þið hvað það kostar að fara svona fimm eða sex sinnum á ári til útlanda til að vera viðræðuhæfur og sæmilega upplýstur í menningarsamfélaginu? Það safnast sko saman. Skíðaferðin í Alpana eða til Aspen er ekki gefin. Og það kostar sko sitt að kolefnisjafna það allt saman. Varla þurfið þið að hafa áhyggjur af því?
– o –
Við þurfum að kosta til hundruðum þúsunda til að fara á hreindýr (jafnvel til annarra landa) meðan þið smalið bara nokkrum kindum og kálfum til að sækja í matinn. Meðlætið er ekki gefið í Melabúðinni megið þið vita en hjá ykkur duga bara kartöflurnar úr garðholunni.
– o –
Og við þurfum að vera vel til fara – ekki bara í gæruúlpunni eða kraftgallanum eins og þið getið. Við aftur á móti þurfum alklæðnað frá heimsins þekktustu framleiðendum við hvert einasta tækifæri til að geta látið sjá okkur. Þetta er ekkert grín og það kostar. Kostar alveg helling. Ég sá einu sinni mann í sandölum og Múmínsokkum í ræktinni. Hann var að norðan greyið og kom aldrei aftur.