6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
„Þau mál sem koma til lögreglu er kannski bara toppurinn á ísjakanum“
Á síðustu mánuðum hefur forvarnarfulltrúi hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra heimsótt nemendur í 8. bekk í grunnskólum á svæði embættisins og frætt þau um stafrænt ofbeldi og gildi samþykkis í stafrænum samskiptum.
Silja Rún Reynisdóttir er forvarnarfulltrúi lögreglunnar á svæðinu en hún er með aðsetur á Húsavík. Blaðamaður ræddi við hana nýverið um fræðsluátakið sem hún segir að hafi hlotið mjög jákvæð viðbrögð.
Fræðslan er hluti af fræðsluherferð Ríkislögreglustjóra og Neyðarlínunnar í samvinnu við lögregluembættin á landsvísu.
Í könnun Fjölmiðlanefndar kom fram að fjórðungur stúlkna á aldrinum 15-17 ára hefur verið þvingaður til myndsendinga og tæp 18% hafa lent í myndbirtingu gegn vilja sínum.
Mikil fjölgun er á skráðum kynferðisbrotum gegn börnum, en á fyrstu 10 mánuðum ársins 2021 voru 61% brotaþola undir 18 ára í kynferðisbrotum í þeim málum þar sem aldur brotaþola var skráður.
Kenna netöryggi
„Við höfum verið að fylgja þessu eftir. Þá förum við í skólana, inn í kennslustofur að kynna fræðsluefni og sýnum myndband sem við létum gera. Þar erum við að fjalla um stafrænt kynferðisofbeldi og öryggi á stafrænum miðlum,“ segir Silja og bætir við að þau séu einnig að kynna nýja 112 appið. „Þar er líka hægt að senda inn tilkynningar og spjalla við neyðarvörð í gegn um appið,“ segir hún.
Silja segir að heimsóknirnar í skólana hafi einnig verið nýttar til að fá nemendur til að svara nafnlausri könnun. Þar er verið að kanna hvað börnin vita um hluti eins og sakhæfi og stafrænt kynferðisofbeldi.
„Við erum að fræða þau um hvað er sakhæfi og hvað stafrænt kynferðisbrot þýðir, hvað má og hvað ekki og mikilvægi þess að beita gagnrýnni hugsun. Ekki trúa öllu sem þú sérð í símanum eða á netinu. Það þarf að horfa gagnrýnum augum á það sem er á netinu. Samfélagsmiðlar eru orðnir eðlilegur hluti af daglegu lífi og fólk deilir mikið af persónulegum upplýsingum hugsunarlaust á netinu. Samskiptin eru að verða meira og meira á netinu en staðreyndin er sú að samfélagsmiðlar eru ekki jafn öruggir og þeir virðast,“ segir Silja og bætir við að flest brot sem koma til rannsókanar lögreglu eru að einhverju leiti stafræn. „Það er alltaf verið að skoða tölvur og síma eða eitthvað slíkt í rannsóknum á brotum.“
Þá segir Silja að mikil áhersla sé lögð á að skýra fyrir börnunum hvað felist í sakhæfi. „Þó að þau séu ekki búin að ná 15 ára aldri og sakhæfi þá berum við samt ábyrgð á því sem við gerum. Þegar yngri einstaklingar eiga í hlut, þá er bara verið að vinna málin á annan hátt og í samstarfi við barnavernd.“
Hlutfallið hækkar við 14 ára aldur
Aðspurð um hvers vegna ákveðið hafi verið að ræða við nemendur í 8. bekk frekar en aðra segir Silja að þá séu þau almennt orðin nógu gömul til að nota samfélagsmiðla. En aldurstakmark á marga þessara miðla eru 13 ár. „Þetta er því kjörinn aldur til þess að ræða við nemendur um ábyrgð í stafrænum samskiptum,“ segir hún.
Hún bendir jafnframt á að rannsóknir sýni fram á mikið stökk hjá stúlkum þegar þær fara úr 8. bekk upp í 9. bekk. „Þá hækkar hlutfallið á því að verið sé að biðja þær um eða senda þeim nektarmyndir,“ segir Silja og bætir við að klámáhorf ungmenna á þessum aldri sé að mælast frekar hátt.
Þá tekur hún fram að kennsluefnið og myndböndin séu aðgengileg og skólar geti notað það til fræðslu í öðrum bekkjum. Hér er hlekkur á fræðsluefnið.
Jákvæð viðbrögð
Silja segir að vel hafi verið tekið á móti þeim í skólunum og viðbrögðin verið mjög góð. „Allir í skólageiranum hafa lýst ánægju sinni með framtakið og vilja fá okkur inn í skólana. Viðbrögðin hjá krökkunum hafa líka verið mjög góð. Þetta er þungt umræðuefni en þau spyrja spurninga,“ segir hún og bætir við að það dýrmætasta sé kannski það að nemendur hafa nýtt tækifærið til að segja frá reynslu sinni. „Nú þegar hafa nokkrir krakkar komið til mín eftir fyrirlesturinn og verið að segja frá því að hafa lent í einhverju eða upplifað. Þetta eru oft mál sem vinda hratt upp á sig og margir vita bara ekki hvert á að leita. Enda leggjum við áherslu á upplýsa nemendur um hvert þau geti leitað ef eitthvað kemur upp. Þau geta líka leitað til okkar eins og dæmi eru um. Þetta getur verið mjög erfitt fyrir þau að vera komin í þessa stöðu að hafa sent af sér nektarmynd, það getur verið erfitt að leita til foreldra með svoleiðis mál. Við erum að leggja áherslu á að þau leiti til einhvers sem þau treysta og geti leiðbeint þeim áfram, hvort sem það sé einhver fullorðinn eða félagastuðningur og koma málunum þannig í réttan farveg.“
Hafa ber í huga að aðeins lítill hluti þeirra mála er tengjast stafrænu kynferðisofbeldi kemur til kasta lögreglu, eins og Silja bendir réttilega á: „Þau mál sem koma til lögreglu er kannski bara toppurinn á ísjakanum. Það er fullt af málum sem við fáum einfaldlega ekki veður af. Þess vegna er það svo mikilvægt að koma því inn hjá börnunum að segja frá og vera ekki að burðast með þetta ein,“ segir hún.
„Við sjáum alls konar birtingarmyndir af þessu. Það er algengt og tölfræðin segir okkur það að eldri karlar eru að biðja ungar stúlkur um myndir af kynferðislegum toga. En þetta eru líka jafnaldrar og við erum að leggja áhersluna á það að sá sem birtir mynd eða dreifir henni er sá brotlegi en ekki sá eða sú sem tekur mynd og sendir. Þetta er stærra en við sjáum í tölunum okkar af því þetta er ekki allt að skila sér til okkar. Við vitum það og þess vegna erum við í þessu átaki.“
Samfélagslöggur
Silja talar gjarna um sig sem samfélagslöggu og blaðamaður spyr nánar út í það. „Mér finnst þetta einfaldlega svo gott orð og passar mjög vel við þá vegferð lögreglunnar að tengjast betur inn í samfélagið,“ segir hún.
Lögreglan á Norðurlandi eystra hélt einmitt vinnustofu í Hofi fyrir skemmstu undir yfirskriftinni Börn í viðkvæmri stöðu.
„Þangað buðum við aðilum frá heilbrigðisþjónustunni, félagsþjónustunni, barnavernd og skólum. Þarna vorum við að skoða hvað við getum gert fyrir þennan hóp á okkar svæði. Hvað getum við gert í okkar verklagi til að bæta stöðu þessa viðkvæmu einstaklinga,“ útskýrir Silja og bætir við að það hafi verið mikill samhljómur fagaðila á vinnustofunni og áberandi ákall um meiri samvinnu.
„Að það séu ekki allir að vinna hver í sínu horni, heldur faglega að vinna saman til að bæta stöðu þessara barna. Þessi vinnudagur tókst mjög vel og það voru allir ánægðir með hann og gott að heyra í öllum fagaðilum,“ segir Silja og vonast til þess að þessi vinna verði til sameiginlegs verklags á milli allra fagaðila. „Verklag sem brýtur niður þessa veggi sem hafa verið á milli þessara stofnana,“ segir Silja að lokum.