20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Þankar gamals Eyrarpúka
Um miðja síðustu öld var einn barnaskóli á Akureyri, einn gagnfræðaskóli, tvö kaupfélög, þrjár leigubílastöðvar enda fátt um einkabíla og svo tveir barir: Diddabar og Litlibar sem báðir gerðu út á bindindi og fagurt líferni í hvívetna enda þótt einhverjir þættust merkja þar óreglu endrum og sinnum – einkum þegar togarar voru í höfn. Þá var oft gott að læðast inn á barina og kaupa Valash, Lindubuff og bolsíur, allt eftir kaupgetu hvers dags sem venjulega var í beinum tengslum við hvað tókst að selja mörg eintök af Degi þá vikuna á kaupfélagshorninu við brunahanann stóra.
Sumarið leið, haustið tók við og stutt í jólin. Fyrstu teikn þeirra birtust þegar kaupfélagsstjarnan var fest upp milli Hótel KEA og aðalstöðva KEA. Í kjölfarið kom svo Amaróstjarnan góða þvert yfir Hafnarstræti. Þarna stóðum við krakkarnir og dáðumst að þessum ljósum prýddu stjörnum sem boðuðu komu jólanna. Snjór hafði kyngt niður og mjólkurbílar komust því hvergi en bændur tóku það ráð að brjótast sjálfir í fannferginu með mjólkina í Samlagið á sleðum sem hestar drógu héðan og þaðan úr fjósum Eyjafjarðar. Hrossin bruddu mélin ákaft þegar þau streittust með sleðana í eftirdragi inn í bæinn því þau vissu að fimm stjörnu hestahótel beið þeirra - hótel sem átti engan sinn líka með tilheyrandi viðurgjörningi og atlæti. Þá var gaman að koma við á hestahóteli Carolínu Rest við hliðina á kirkjutröppunum á leiðinni í skólann og virða fyrir sér sveitt hrossin sem dampaði af þar sem þau hámuðu í sig ilmandi töðuna af áfergju. Fyrir utan voru húsbændur þeirra að taka út í kaupfélaginu eitt og annað til heimabrúks og spjalla við aðra bændur og innanbúðarfólk um lífið, tilveruna og aðra Framsóknarpólitík!
Í endurminningunni er þetta allt vafið upphafinni draumsýn þar sem fátt var skemmtilegra en að ráfa í snjónum í fólksmergðinni fyrir jólin milli búða sunnan frá Verslun Eyjafirði, fram hjá kaupfélagsbúðunum, Vöruhúsinu í París, Bókabúð Rikku, Amaró, Braunsverslun og norður til Pöntunarfélagsins fyrir vestan hið ráðhúslausa Ráðhústorg. Á miðju torginu var tréð mikla, sem í mínum huga var sjálft skilningstré góðs og ills enda vitni að hinni fjölbreyttu flóru mannlífsins sem blasti við til allra átta í miðbænum. Tréð atarna bjó yfir mörgum rómantískum leyndarmálum þegar vel fór á með fólkinu sem kom af böllunum á Hótel Norðurlandi og Alþýðuhúsinu. Einnig sá það ýmislegt misjafnt og jafnvel hroðalega atburði sem nauðsyn bar til að halda leyndum því annars var hætta á upplausn í þessu litla samfélagi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þess vegna gekk sú flökkusaga fjöllum hærra að þeir sem óttuðust lausmælgi trésins hafi beitt sér fyrir því að það var hoggið niður og kastað upp á hauga. Sagt er að mörgum hafi létt ákaflega þegar það var fjarlægt og þeir hinir sömu fengið aftur lífslöngunina sem skertist jafnan þegar þeir litu tréð sem geymdi leyndarmálin óbærilegu. Ekki er vitað um sannindi þessarar kenningar en miðað við öll ævintýrin, sem gerðust í minni æsku á Akureyri er þessi söguskýring ekkert ótrúlegri en margt af því sem þar gerðist í raunveruleikanum.
Ingólfur Sverrisson