20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
„Tannlæknatækin töluvert frumstæðari en nú á tímum“
Ingólfur Sverrisson skrifar Þanka gamals Eyrarpúka
Fyrir sjö áratugum var Barnaskóli Akureyrar í mínum augum vettvangur mikilla andstæðna. Ekki þar fyrir að flest liðaðist áfram í þeim góða skóla átakalaust og þægilega og lífið alla jafnan gott og gefandi enda kennararnir hver öðrum betri. En inn á milli urðu þeir atburðir sem annað tveggja fleyttu ykkar einlægum til skýjanna í alsælu eða ollu slíkri vanlíðan að stappaði nær ofsahræðslu.
Áður hefur verið minnst á í þessum þönkum að söngkennsla var í óvenjugóðum höndum hjá Björgvini Jörgenssyni. Í söngtímunum kynnti hann okkur ný og falleg lög, hvernig þau voru upp byggð og hljómagang hvers og eins. Það voru sannkallaðar unaðsstundir. Svo kunni hann þann galdur að fá okkur til að syngja skipulega saman og afrakstur þess var einn besti barnakór sem Ísland hefur nokkru sinni átt, Barnakór Akureyrar. Hámarkið var þegar þessi frábæri kór söng í útvarpinu lög eins og Um sumardag og Sumri hallar þar sem Arngímur B. Jóhannsson og Anna G. Jónasdóttir sungu einsöng. Á slíkum stundum fór um mann sælutilfinning og stolt að hlusta á skólasystkini sín syngja svona undur fallega fyrir þjóðina.
Hinn hliðin á tilverunni í skólanum eina var þegar bankað var á skóladyrnar í miðjum tíma. Þá óttaðist ég alltaf að nú væri aðstoðarkona skólatannlæknisins komin til að sækja eitthvert okkar í stólinn hræðilega. Kennarinn kallaði upp nafn þess sem átti að mæta til tönsa. Þvílíkur léttir þegar nafn mitt var ekki nefnt og einhver annar þurfti að fara niður í tannlæknastofuna. En svo gerðist það eitt sinn að ég var að lesa upphátt úr Passíusálmunum frásögnina þegar Kristur gekk upp á Golgata. Þá var bankað og nafn mitt kallað upp. Þar með þótti mér orðin í sálmunum hafa breyst í áhrínisorð og ég sjálfur að hefja mína eigin píslargöngu þó ég gerði mér vissulega vonir um að lifa hana af.
Á þessum árum voru tannlæknatækin töluvert frumstæðari en nú á tímum og borinn ógurlegi var knúinn áfram með mjóum reimum sem snérust frekar hægt á ótal hjólum. Ekki sá fítonskraftur á bornum eins og við þekkjum í dag. Hægt og stillilega boraði tannlæknirinn í holurnar en deyfing var ekki í boði. Þess vegna rak maður upp sársaukaóp öðru hvoru og kipptist allur til. Þetta þótti tannlæknum ekkert tiltökumál og héldu rólegir áfram iðju sinni þar til komist var fyrir meinið.
Þegar ég svo löngu síðar las Tannlæknakvæði Jóns Helgasonar var ég sammála hverju orði:
„Furduleg efni og ferlig tól
fékkst þú í hvopt mér sett,
naglbíta, hamra, nafra, hjól,
nickel og blý og plett,
forgéfins var að skrída í skjól,
þú skrúfaðir jafnt og þétt,
án þess að sinna um mín gól
(hvør ekki vóru nett).”
Þannig var upplifunin á hinum ýmsu atburðum í Barnaskólanum misjöfn eins og lífið sjálft. Flest gaman og fróðlegt, sumt svo áhrifaríkt að auðvelt var að komast í eins konar upphafningu og hrífast með. Svo var það mótlætið eins og að lenda í tannlæknastólnum sem var þó til þess að maður hélt tönnunum og gat bitið frá sér í fyllingu tímans!
Ingólfur Sverrisson