Takið skrefið til baka og endurhugsið forsendur
Hulda Elma Eysteinsdóttir, Halla Björk Reynisdóttir og Andri Teitsson skrifa
Óhætt er að segja að um fátt hafi verið meira rætt en áform Ásmundar Einars Daðasonar, Mennta- og barnamálaráðherra, um að sameina VMA og MA síðustu daga og sitt sýnist hverjum. Fyrirhuguð sameining er risastórt hagsmunamál fyrir sveitarfélagið og Norðurland allt.
Bæjarstjórn átti fund með ráðherra og skólastjórnendum daginn sem tilkynnt var um áformin, þar sem ráðherra fór yfir málið. Í umræðunum kom fram hjá skólameisturunum að forsenda sameiningar mætti alls ekki vera á rekstrarlegum forsendum einum saman, enda sýndi reynslan að slíkar sameiningar væru dæmdar til að mistakast. Bæjarfulltrúum hafði ekki gefist tími til þess að lesa skýrsluna sem liggur til grundvallar áframhaldandi vinnu fyrir fundinn en eftir lestur hennar er ekki laust við að ýmsar spurningar vakni og grunur um að það séu einmitt einungis rekstrarleg sjónarmið sem ráða för.
Í skýrslunni er talað um að megin tilgangur vegferðarinnar sé að efla framhaldskólana og auka fjölbreytni. Fram kemur að báðir skólar glími við rekstrarvanda „Ljóst er að fjárþörf skólanna er meiri en fjárlög leyfa við núverandi skipulag, skólarnir hafa báðir tekið við fleiri nemendum en þeir fá greitt fyrir sem setur skólana í erfiða stöðu“. Til þess að bregðast við þessu er bent á að með því að fækka starfsfólki, svo sem náms- og starfsráðgjöfum og sálfræðingum, megi draga úr kostnaði, ekki er útskýrt með hvaða hætti það geti eflt skólana eða bætt þjónustu við nemendur eða eru færri sálræn vandamál í stærri skólum – við teljum ekki. Ef ekki er hægt að reka bóknámsskóla með 600 nemendur svo að vel sé, eða verkmenntaskóla með 1200 nemendur þá er okkur vandi á höndum sem þjóð.
Ef Akureyri á að standa undir nafni sem "hin borgin" á Íslandi, er nauðsynlegt að geta haldið áfram að bjóða ungu fólki alls staðar að af landinu upp á tvo ólíka og sterka skóla. Það er mikilvægt fyrir Akureyri, Norðurland og landið í heild sinni.
Við bæjarfulltrúar L-listans viljum því skora á þau sem koma að þessari vinnu að taka skref til baka og endurhugsa forsendur þessarar vinnu sem lagt var upp með. Við förum fram á að þegar umbylta á þjónustu við íbúa þá sé það undirbúið og rökstutt betur, gert í samvinnu við þá sem á að þjónusta og að fólk gefi sér tíma. Það verður að vera einhver annar ávinningur í því að sameina en að leggja niður bekkjarkerfi, sameina bóknámsáfanga skólanna, fækka sálfræðingum og námsráðgjöfum. – gerum betur!
Bæjarfulltrúar L-listans;
Hulda Elma Eysteinsdóttir
Halla Björk Reynisdóttir
Andri Teitsson