Tækifæri í sameinuðu sveitarfélagi
Helgi Héðinsson og Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifa
Sveitarfélagið sem verður til í vor við sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar er auðugt af fjölbreyttum auðlindum, mannauði, orku, náttúruperlum og farsælum atvinnuvegum. Það er hlutverk sveitarfélagsins að greina tækifæri sem felast í þessum miklu auðlindum og aðstoða íbúa við að grípa þau. Að sama skapi þurfum við að vera vakandi fyrir þeim ógnunum sem að okkur steðja sem samfélag hverju sinni.
Hér í upphafi verður aðeins tæpt á nokkrum þáttum sem framboðið hefur markað sér stefnu í, en þar má til dæmis nefna þau stórkostlegu tækifæri sem felst í aukinni verðmætasköpun og sjálfbærnihugsun í matvælaframleiðslu svæðisins. Svæðið er ríkt af orku og landsvæði sem samhliða kraftmiklum mannauði og staðbundinni þekkingu er vel til þess fallið að vera leiðandi í þeirri sjálfbærnihugsun sem nú hefur fengið byr undir báða vængi. Að sama skapi eru á svæðinu allar forsendur til að vera leiðandi í framþróun á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Sem dæmi má nefna að allar jarðvarmavirkjanir Landsvirkjunar verða staðsettar í hinu sameinaða sveitarfélagi og í góðu samstarfi kunna að felast mikil tækifæri. Þá eru veruleg tækifæri til verðmætasköpunar fyrir bændur með framþróun þeirra verkefna sem verið hafa í deiglunni, meðal annars á vettvangi Nýsköpunar í norðri.
Það er grundvallarmarkmið að fjölga íbúum sveitarfélagsins og styrkja þannig félagslegar stoðir samfélagsins. Þar er húsnæði mjög takmarkandi þáttur þar sem sveitarfélagið þarf að draga vagninn, annars vegar með því að byggja húsnæði og hinsvegar að beita aðalskipulagi til að fjölga heilsársbúsetukostum til kaups og leigu. Þá er aðkallandi að eiga gott samtal við íbúa til að tryggja farsæla framþróun slíkra valmöguleika og framboð í takt við þarfir á svæðinu öllu.
Öflug ferðaþjónusta einkennir stóran hluta sveitarfélagsins og við verðum áfram að styrkja innviðina svo við getum með sem bestum hætti skapað verðmæti með móttöku ferðamanna í fullri sátt við íbúa og náttúru. Slíkt verður einnig forsenda öflugrar innviðauppbyggingar í þágu íbúa og undirstaða fjárfestingargetu sveitarfélagsins.
Nýsköpun í stjórnsýslu
Öflug stjórnsýsla og góðir stjórnarhættir hafa verið í forgrunni í vinnu síðustu ára. Virkt samráð við íbúa með opnum fundum sveitarstjórna, fjölda íbúafunda auk reglulegra pistla og kynningarfunda um hin ýmsu málefni eru nauðsynlegur vettvangur fyrir samtal og samráð við íbúa. Stjórnsýslan er sífellt að þróast og enn eru fjölmörg tækifæri til að gera enn betur.
Stjórnskipulag sameinaðs sveitarfélags hefur vakið athygli, en þar er ekki gert ráð fyrir sveitarstjóra. Þess í stað er áhersla á teymisvinnu sviðsstjóra sveitarfélagsins auk fulltrúa úr sveitarstjórn sem ber ábyrgð á og stýrir vinnu framkvæmdastjórnar. Níu manna sveitarstjórn beri alfarið ábyrgð á mörkun stefnu sveitarfélagsins og framkvæmdastjórn framkvæmir eftir stefnumörkun sveitarstjórnar.
Kosti þessa skipulags teljum við vera fjölmarga umfram hefðbundið skipulag og þess virði að láta á það reyna. Verkefni sveitarstjóra eru mjög yfirgripsmikil og fjölgar sífellt og samstarf um þau á vettvangi framkvæmdastjórnar geti aðeins verið af hinu góða og tryggt markvissari framkvæmd stefnumála sveitarstjórnar. Slíkt gefi tækifæri til verkaskiptingar og samstarfs á grundvelli teymishugsunar. Þá á skipulagið að tryggja góða þjónustu með einföldum og vel skilgreindum ábyrgðarsviðum og boðleiðum, íbúum til heilla. Kostnaður við þetta nýja skipulag ætti einnig að vera lægri enda verið að einfalda þó nokkuð hefðbundið skipulag sveitarfélags af þessari stærðargráðu sem gerði vanalega ráð fyrir sveitarstjórn, byggðarráði og sveitarstjóra auk sviðsstjóra. Betri þjónusta, skilvirkari stjórnsýsla og hagkvæmni að leiðarljósi.
Við leggjum ríka áherslu á fjölskylduvænt starfsumhverfi þar sem starfsfólki sveitarfélagsins líður vel. Slíkt verður tryggt með öflugri mannauðsstefnu sem þegar er til.
Öflug hagsmunagæsla
Eitt megin viðfangsefni komandi ára verður að gæta hagsmuna íbúa svæðisins í hvívetna. Við ætlum okkur að hafa sterka rödd gagnvart ríkisvaldinu og tryggja uppbyggingu og framþróun hins opinbera til stuðnings íbúa svæðisins alls, sem dæmi um innviði sem þarf að efla er hið stóra vegakerfi sveitarfélagsins með holóttum malarvegum og einbreiðum brúm. Vel hefur gengið á liðnum árum enda nemur fjárfesting ríkisins á svæðinu vel á annan milljarð króna. Sem dæmi um vel heppnað samstarf og öfluga hagsmunagæslu má nefna verkefnið í gamla Skútustaðaskóla (hótel Gíg), en þar hefur orðið til þekkingarsamfélag á grunni fjölbreyttra stofnana sem verður spennandi suðupottur rannsókna, miðlunar og þróunar tækifæra á sviði landnýtingar og verndar. Hjartað í því samhengi er nálægðin við Vatnajökulsþjóðgarð og þá starfsemi sem þar blómstrar, en ekki síður hið einstaka verndarsvæði Mývatns og Laxár. Miðstöð náttúruverndar á hvergi betur heima, en á hálendinu við Mývatn og Laxá og þegar upp verður staðið verður við Gíg blómlegur 50 manna vinnustaður.
Hamingjusamt samfélag til framtíðar
Laugardaginn 14. maí ganga íbúar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar í fyrsta sinn til kosninga í sameinuðu sveitarfélagi. Sameining sveitarfélaganna hefur átt langan aðdraganda, en hún var samþykkt með afgerandi hætti í kosningu síðastliðið vor.
K-listinn sem býður fram krafta sína í sameinuðu sveitarfélagi er samsettur af breiðum hópi fólks með mismunandi bakgrunn en við eigum það sameiginlegt að bera hag samfélagsins fyrir brjósti og brennum fyrir framförum í þágu íbúa svæðisins. Stefna listans er í grundvallaratriðum að tryggja öllum íbúum sameinaðs sveitarfélags sveigjanlega og góða þjónustu til framtíðar og þar með stöðugt að auka búsetugæði þeirra. Það er einlægur vilji okkar að sveitarfélagið verði eftirsóknarverður staður til að búa á með framúrskarandi þjónustu og sterkum innviðum. Við viljum tryggja árangursríka sameiningu sveitarfélaganna á öllum sviðum með hamingju fólks og stöðugleika í fjárhag og rekstri sveitarfélagsins að leiðarljósi. Okkur finnst mikilvægt að auka nálægð íbúa við stjórnsýslusviðið með því að miðla upplýsingum, tryggja gagnsæi og samráð. Skólastarfið og börnin okkar eru hjartað í samfélaginu og við leggjum mikla áherslu á framþróun þeirra tækifæra sem að þeim snúa, en nánar verður fjallað um þau og margt fleira í næstu pistlum.
Við trúum því að framtíðin sé björt og að saman getum við gert gott samfélag enn betra með gleði og hamingju að leiðarljósi.
Helgi Héðinsson
Jóna Björg Hlöðversdóttir