Sýningaopnun í Safnahúsinu á Húsavík Huldulönd: Íslensk náttúra og yfirnáttúra

Sýningin opnar á morgun laugardaginn 6. apríl klukkan 14
Sýningin opnar á morgun laugardaginn 6. apríl klukkan 14

Á morgun laugardag klukkan 14, opnar í Safnahúsinu á Húsavík áhugaverð sýning tveggja myndlistakvenna sem hafa í áratugi auðgað samfélagið með list sinni þar sem þjóðlegar aðferðir fá að njóta sín til fullnustu.

Oddný E. Magnúsdóttir er fædd í Fagradal í Vopnafirði árið 1949. Hún lærði vefnað í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og starfaði lengi við kennslu en iðkar nú list- og handíðir á eigin vinnustofu á Húsavík.

Verk Oddnýjar eru ofin, saumuð eða þæfð og eru unnin úr ull eða ullargarni sem í mörgum tilfellum er bæði heimalitað og heimaspunnið. Myndefni flestra verkanna tengjast íslenskri náttúru.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir er fædd á Sandi í Aðaldal árið 1947 þar sem hún er jafnframt búsett. Hún er menntuð myndlistarkennari frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lærði þar einnig myndvefnað. Hólmfríður hefur alltaf ofið meðfram öðrum störfum og kallar sig vefara eftir að hún hætti kennslu.

Verk Hólmfríðar eru öll ofin eða saumuð í flóka og eru unnin í ull, lopa og ullarband. Helstu myndefni eru landið góða, vættir og goð.

Nýjast