Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar rekur Smámunasafnið ekki áfram í núverandi mynd

Frá Smámunasafninu  Mynd MÞÞ
Frá Smámunasafninu Mynd MÞÞ

„Ekkert stefnuleysi ríkir hjá sveitarstjórn þegar kemur að safninu og framtíð þess,“ segir í svari sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveit til Félags íslenskra safna og safnamanna, en félagið spurðist fyrir um áform sveitarstjórnar varðandi Smámunasafn Sverris Hermannssonar sem verið hefur í Sólgarði í Eyjafjarðarsveit um árabil. 

„Sveitarstjórn hefur ákveðið að reka safnið ekki áfram í núverandi mynd. Í því felst að sveitarfélagið mun láta af því að skrá safnmuni og ekki ráða starfsmann til að halda úti almennri opnun safnsins,“ segir í svari Eyjafjarðarsveitar þar sem spurt er um stefnu varðandi framtíð safnsins.

Þá var spurt hvað sveitarstjórn hygðist gera við safnkost og sýningu ef húsnæði yrði selt. Sveitarstjórn hefur ákveðið að selja fasteignina að Sólgarði og kemur fram í svari að fram til þessa hafi verið gengið út frá því að sýningin geti áfram verið í húsnæði, þrátt fyrir sölu hússins, en að því gefnu að um slíkt semjist við nýjan eigenda. Verði það ekki mögulegt þurfi að ræða hver afdrif sýningarinnar verða, en til þessa hafi enn ekki komið og því ekki tímabært að gefa út yfirlýsingar um slík.

„Allir sem að safninu koma hafa verið upplýstir um þetta í langan tíma og hafa starfsmenn þess unnið að því undanfarið ár að undirbúa safnmuni og sýningu í samráði við Minjasafnið á Akureyri og Þjóðminjasafn Íslands út frá því að munir geti ýmist farið í varðveislu eða áframhaldandi sýningu eftir því sem við á,“ segir enn fremur og bent er á að einungis hluti safnsins sé til sýnis í Sólgarði, hluti þess sé í hirslum víðs vegar um húsið.

Hreyfing í sölu Sólgarðs

Eyjafjarðarsveit á nokkrar fasteignir sem áhugi er fyrir að selja, m.a. Sólgarð, Freyvang og Laugalandsskóla en miklar byggingaframkvæmdir standa yfir við Hrafnagilsskóla.Enginnþessara fasteigna er seld, Freyvangsleikhúsið tók Freyvang á leigu tímabundið, Barnaverndastofa leigir Laugaland undir starfsemi sína. Sólgarður hefur verið til sölu um skeið en fasteignin er enn óseld.

Sveitarstjóri segir þó nokkuð um fyrirspurnir og reiknar mögulega með að hreyfing gæti orðið á því máli á næstu viku.

Nýjast