SVARTIR SAUÐIR/CZARNE OWCE
Stundum eru svörtu sauðirnir bestu sauðirnir. Fólk kennir sjálft sig við svarta litinn af alls kyns ástæðum. Fimmtudagskvöldið 2. mars hefst tónleikaferð listahópsins (N)ICEGIRLS um Norð-austurland. Það eru Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir, Helena Guðlaug Bjarnadóttir og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir sem hafa samið splunkunýja tónleikadagskrá um sauðfjárrækt, væntumþykju, lífið á Íslandi nú og þá, upphafningu svarta litarsins og fleira. Tónlist og ljóð eru alfarið samin af þeim sjálfum, en þær syngja og leika á selló og orgel.
Listahópurinn ICEGIRLS, eða (N)ICEGIRLS kemur hér fram í fyrsta sinn. Hópurinn mun fremja tónlist, ljóðlist og myndlist og ekki endilega vera alltaf skipaður stelpum og ekki endilega alltaf vera úr klaka. En fást við lífið, á Íslandi og bara yfirleitt. Eins og gengur. (N)ICEGIRLS reyna að vera næs, en kannski mun það ekki alltaf takast. Það á eftir að koma í ljós.
Frumflutningur verður í Grenivíkurkirkju 2. mars kl. 20 - mjög spari, ekki missa af! Grenivík var ekki valin af tilviljun fyrir frumflutninginn, en Steinunn fékk hugmyndina að tónleikunum í heimsókn á Bárðartjörn eftir göngur þar á Látraströnd síðasta haust. Eftir tónleikana kemur í ljós hvort Steinunn fær einhvern tímann aftur að koma í heimsókn á Bárðartjörn. Föstudaginn 3. mars verður spilað í Hrísey, og svo á Dalvík, Kópasker, Raufarhöfn, Þórshöfn og Akureyri. Tónleikarnir verða fluttir í kirkjunum, og á fjórum dvalarheimilum aldraðra.
Einu sinni áttu allir á Íslandi sveit. Nú á Ísland mörg tungumál. Kindur labba um fjöllin og fólk sýslar við sitt. Það er allt frekar gaman, ef maður spáir í það. Við öll saman, einhvern veginn. Tónleikar (N)ICEGIRLS verða m.a. dálítið tungumálapartý, að mestu á Íslensku, sirka einum tíunda Pólsku og ef vel tekst til líka smá Swahili og Frönsku eða Ítölsku. Tungumálaportrett af Íslandi einmitt núna.
Allt er þetta gert til að hafa gaman saman, að orðum, hljóðum og tónum. Tónlistarsjóður, KEA, Kirkjan og STEF styrktu verkefnið. (N)ICEGIRLS kunna þeim bestu þakkir og bjóða öll velkomin á tónleikana, aðgangur er ókeypis!