Svartfugl með öllu
„Ég á ekki auðvelt með að fara nákvæmlega eftir uppskrift og er mælieiningin „dass“ stundum mjög vel við hæfi að mínu mati,“ segir Hera Óðinsdóttir sölustjóri hjá Ásprenti sem sér um matarkrók vikunnar.
„Maðurinn minn hefur mjög gaman af því að skella sér á sjóinn og því hefur meðal annars töluvert af svartfugli ratað í frystikistuna okkar. Alls konar æfingar hafa farið fram í eldhúsinu en þessi uppskrift er sú sem okkur líkar best enn sem komið er og ætti að duga fyrir fjóra.“
Svartfugl:
Svartfuglsbringur af 5-6 fuglum, mjög vel fituhreinsaðar. Þær látnar liggja í grófu matarsalti í ca. 30 mín. Saltið síðan skolað af og bringurnar snöggsteiktar á háum hita úr olíu og „dass“ af smjöri. Eingöngu kryddað með svörtum pipar og kjötinu lokað. Ofninn hitaður í 220°C og bringurnar settar í eldfast mót og settar í ofninn í 3 mín, fatið tekið úr ofni og látið standa í aðrar 3 mín. þetta er endurtekið í þrígang, gott að láta bringurnar standa í smá stund áður en þær eru skornar í sneiðar.
Ofnbakað grænmeti:
Með þessu er gott að hafa ofnbakað grænmeti, gróft skorið, og ég vel að nota: rauða papriku sæta kartöflu broccoli rauðlauk gulrætur Makað í olíu og „dassi“ af flögusalti og svörtum pipar stráð yfir og bakað í ofni ca. 30 mín. eða þangað til grænmetið er orðið mjúkt. Á lokasprettinum bæti ég við sveppum og leyfi þeim að bakast með.
Sæt kartöflumús:
Sæt kartafla (meðalstór) soðin, ca. ½-1 teskeið af vanillusykri, „dass“ af púðursykri og einnig er mjög gott að fínmylja Cornflex og setja út í svona ca. lúkufylli, nota töfrasprotann eða hrærivélina til að vinna þetta saman. Hef hana ekkert flóknari en þetta J
Sósa:
Ég bæti aðeins vatni á pönnuna eftir að hafa steikt bringurnar og næ þar af leiðandi aðeins krafti af fuglinum í sósuna. Bæti við rjóma og alltaf gott að setja góðan ost og láta bráðna út í. Kjötkraft eftir þörf og ekki skemmir að setja aðeins rifsberjahlaup eins og eina til tvær teskeiðar og þykki hana svo. Allt er þetta smekksatriði hvers og eins – gott að smakka sósuna bara til.
Snittur:
Við höfum einnig látið taðreykja eitthvað af fugli fyrir okkur og þá gjarnan notað hann á t.d. snittur þegar eitthvað stendur til. Þá geri ég kalda hvítlaukssósu helst kvöldinu áður. Eins og fram hefur komið þá á ég ekki nákvæma uppskrift til en hlutföllin eru u.þ.b. svona:
4-5 msk. majones 1 msk. sýrður rjómi ca. ½ msk. hunang.
Hrært saman, aðeins salt og hvítur pipar
og pressa svo 3-4 stór hvítlauksrif út í.
Ég er mjög hrifin af hvítlauk og nota því vel af honum. Þessi sósa er mjög góð með tað- reyktum svartfugli. Í þessu tilfelli er ég með pönnuristað snittubrauð, hvítlaukssósu, spínat, reyktan svartfugl (spara hann ekki) og rifsberjahlaup.
Ég þykist vita að sælkerinn og ljúflingurinn hann Gunnar Níels Ellertsson lumi á einhverju spennandi og því skora ég á hann að deila því með okkur í næstu viku.