Sunnanvindur - Eftirlætislög Íslendinga – Hofi 15. apríl 2023

Bræðurnir Grétar og Karl Örvarssynir í góðum gír.
Bræðurnir Grétar og Karl Örvarssynir í góðum gír.

 Grétar Örvarsson er með mörg járn í eldinum þessa dagana. Stjórnin, hljómsveitin sem hann stofnaði upp úr Hljómsveit Grétars Örvarssonar, fagnar 35 ára afmæli á árinu. „Af því tilefni verða stórtónleikar í Háskólabíói 30. september auk þess sem Stjórnin mun spila á landsbyggðinni í sumar”, segir Grétar. Þá standa fyrir dyrum tónleikar bæði í Salnum í Kópavogi og í Hofi á Akureyri undir heitinu Sunnanvindur, eftirlætislög Íslendinga. „Þessir tónleikar urðu til upp úr tónleikum sem ég hélt til heiðurs og minningar um föður minn, Örvar Kristjánsson. Pabbi var einn af ástsælustu harmónikkuleikurum þjóðarinnar og spannaði tónlistarferill hans rúm sextíu ár. Hann gaf út 13 hljómplötur á sínum ferli og nutu mörg laga hans mikilla vinsælda.“

 Grétar hefur minnst föður síns með veglegum hætti á síðustu tveimur árum. Minningartónleikarnir Sunnanvindur, eftirlætislög Örvars Kristjánssonar urðu að fernum tónleikum og seldist upp á þá alla. Þá framleiddi Grétar sjónvarpsþátt um líf og tónlistarferil föður síns, sem sýndur var á RÚV á sjómannadaginn í fyrra og eins gaf hann út nótnabók með lögum Örvars. Spurður út í fyrirhugaða tónleika í Salnum 14. apríl og Hofi 15. apríl svarar Grétar: „Þessir tónleikar verða með öðru sniði en hinir fyrri þó að nafnið haldist óbreytt. Að þessu sinni verða flutt eftirlætislög Íslendinga, sígildar dægurlagaperlur sem hafa flust á milli kynslóða. Nefna má lög eins og Góða ferð, María Ísabel, Ég er kominn heim, Segðu ekki nei, Hvítur stormsveipur, Litla sæta ljúfan góða, Því ertu svona uppstökk, Vegir liggja til allra átta, Ást, Það er bara þú og Láttu mjúkra lokka flóð, auk vinsælustu laga pabba eins og Sunnanvindur, Siglt í norður og Við förum bara fetið. „Þá hef ég alla tíð haldið mikið upp á lögin sem Hljómsveit Ingimars Eydal og Sextett Ólafs Gauks fluttu. Við ætlum að flytja nokkur af þeim þekktustu í upprunalegum útsetningum. Þá mun Haukur Gröndal, sem er einn af okkar allra bestu klarinett- og saxófónleikurum, láta til sín taka í lögum Finns Eydal.”

 Úrvalshópur tónlistarfólks verður með Grétari á sviðinu. Söngvarar auk Grétars verða þau Ragnheiður Gröndal og Karl Örvarsson bróðir hans. „Kalli bróðir er ekki bara þekktur söngvari heldur orðin landsfræg eftirherma. Sem strákhnokki lærði hann plötuna Spaug 73 utan að og ætla ég að fá hann til að fara með nokkra valda kafla af henni! Það vekur alltaf ómælda kátínu“, segir Grétar. Hljómsveitina skipa auk Hauks Gröndal þeir Þórir Úlfarsson píanóleikari, Pétur Valgarð Pétursson gítarleikari, Eiður Arnarsson bassaleikari og Sigfús Óttarsson trommuleikari. Þá leikur Húsvíkingurinn Ásta Soffía Þorgeirsdóttir á harmónikku, en Ásta er nýflutt aftur til landsins eftir nám í harmónikkuleik í Noregi og Þýskalandi.  

 „Þetta eru tónleikar fyrir alla þá sem hafa yndi af íslenskum dægurlagaperlum og eins unnendur harmónikkutónlistar”, segir Grétar að lokum. 

Nýjast