20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Stúlknabandið spilar í Akureyrarkirkju og í Vogafjósi
Klassíska hljómsveitin Stúlknabandið leggur land undir fót 12.-13. október næstkomandi og er stefnan tekin á Norðurlandið. Stúlknabandið mun spila tónlist, annars vegar í Mývatnssveit og hins vegar á Akureyri.
Meðalaldur hljómsveitarmeðlimanna þriggja er undir fimmtán árum. Hljómsveitina skipa Sigrún Marta Arnalds víóluleikari, Sól Björnsdóttir píanisti og Sveindís Eir Steinunnardóttir fiðluleikari.
Stúlknabandið hefur vakið athygli fyrir næma túlkun á klassískri tónlist. Kom fram í fréttum Stöðvar 2 fyrr á árinu þegar fjallað var um tríóið, að hljómsveitin var stofnuð með það að markmiði að kynna rómantíska og sígilda tónlist fyrir almenningi, ekki síst ungu fólki.
Einn hljómsveitarmeðlimanna er með norðlenskar rætur. Sól ólst upp á Akureyri og lærði á píanó undir leiðsögn Lidiu Kolosowska við Tónlistarskólann á Akureyri. Annar Norðlendingur, Kristinn Örn Kristinsson, er nú kennari hennar í Reykjavík. Sveindís nýtur leiðsagnar Lilju Hjaltadóttur og kennari Sigrúnar er Guðmundur Kristmundsson.
Á efnisskrá Stúlknabandsins um helgina má nefna tvo tangóa, annan eftir Astor Piazolla og hinn eftir Carlos Gardel. Eftir Glinka verða flutt Þrjú rússnesk ljóð.
„Við erum mjög spenntar, túrinn norður verður okkar fyrsta ferð saman út fyrir höfuðborgarsvæðið,“ segja stúlkurnar sem hafa spilað í Hörpu og Salnum í Kópavogi svo nokkuð sé nefnt og á Barnamenningarhátíð í Safnahúsinu.
„Það verður gaman að heimsækja mínar gömlu heimaslóðir,“ segir Sól og á við báða áfangastaði, því faðir hennar ólst upp í Vogum, Mývatnssveit.
Stúlkurnar hefja leik klukkan 18 laugardaginn 12. október á veitingastaðnum Vogafjósi í Mývatnssveit. Þær spila svo við hádegismessu í Akureyrarkirkju degi síðar. Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum í Vogafjósi.
„Við hlökkum mikið til að fá þessar stelpur til okkar og spila fyrir gesti veitingahússins,“ segir Ólöf Hallgrímsdóttir, eigandi Vogafjóss.
Þá er ekki algengt að börn stofni hljómsveit og flytji tónlist í kirkju. Flutningurinn í Akureyrarkirkju markar því ákveðin tímamót fyrir Stúlknabandið.
Stöllurnar þrjár í Stúlknabandinu