Stuðmenn og Gærurnar í Samkomuhúsinu á Húsavík

Unga fólkið í Píramus & Þispu er með allt á hreinu á sviðinu í Samkomuhúsinu í kvöld. Myndir/epe
Unga fólkið í Píramus & Þispu er með allt á hreinu á sviðinu í Samkomuhúsinu í kvöld. Myndir/epe

Hið fornfræga leikfélag Framhaldsskólans á Húsavík, Píramus & Þispa er í þann mund að hlaða í enn einn söngleikinn en blaðamaður Vikublaðsins skellti sér á æfingu á dögunum og það var ekki um að villast, leikhæfileikar unga fólksins á Húsavík eru í hæstu hæðum og óhætt að lofa frábærri skemmtun þegar leikfélagið frumsýnir söngleikinn Með allt á hreinu í Samkomuhúsinu á Húsavík í kvöld klukkan 20.

Með allt á hreinu er söngleikur  byggður á kvikmynd Stuðmanna frá árinu 1982. Karen Erludóttir leikstýrir en alls koma 33 nemendur að sýningunni. 26 leikarar og 6 sem sinna vinnu á bakvið tjöldin. „Það er á mjög mörgu að taka þegar sett er upp sýning eins og þessi svo leikarar hafa einnig gengið í hin ýmsu verk á bakvið tjöldin,“ segir Karen og bætir við að öll hafi þau lagt hönd á plóg til að láta allt ganga upp og eiga risa stórt hrós skilið.

Fáránlega gaman í vinnunni

Þá hefur  Rakel Dögg Hafliðadóttir, kennari við FSH  verið krökkunum til halds og trausts í þessu ferli. „Þetta ferli er búið að ganga ótrúlega vel, eiginlega bara lygilega vel. Krakkarnir eiga allan heiðurinn af því, því þau ganga bara í það sem þarf að gera og gera það með bros á vör. Það eru aldrei vandamál, bara lausnir og öll hjálpast að,“ segir Karen stolt og bætir við að með þannig hóp sé hægt að gera svo gott sem hvað sem og alltaf fáránlega gaman að mæta í vinnuna.

Þá segir Karen að helstu áskoranir í undirbúningsferlinu séu aðrar skuldbindingar krakkanna en þau hafa í allskonar að snúast meðfram námi og leiklist.

stuðmenn vefur

Ótrúleg keyrsla

„Það hefur valdið því sem veldur því að þau komast ekki alltaf á leikæfingu. Ég held að við höfum aldrei náð heilum degi í þessu ferli þar sem það vantaði ekki einhvern. Sá dagur er þó í vændum, en það er líka á sjálfri general prufunni. Það er í raun algjört lúxus vandamál, því auðvitað er frábært hvað krakkarnir eru virkir í mörgu öðru, en líka vegna þess að þau sýna hvort öðru svo mikinn skilning hvað þetta varðar. Það hleypur bara alltaf einhver í skarðið fyrir þann sem ekki komst svo hinir fái að minnsta kosti æfinguna og þannig hefur þetta bara rúllað undanfarnar vikur. Það eru því ansi mörg sem kunna texta annara, sem er í raun bara eitthvað sem allir græða á,“ útskýrir Karen og viðurkennir að þetta sé búið að vera mikil keyrsla undanfarnar vikur.

„Já, allir seinni partar og öll kvöld síðan í byrjun september og flestar helgar hafa líka farið í leikhúsið. En það er ekki að sjá að það sé komin einhver þreyta eða leiði í hópinn, en það er hinsvegar gífurleg tilhlökkun í að fá að sýna fólki afraksturinn af allri þessari vinnu,“ segir Karen og vonast til þess að Húsavíkingar og verðlauni þessi hæfileikaríku ungmenni með því að fjölmenna í leikhús.  

Takið af ykkur skóna

Emjar enn af hlátri

„Ég hvet ég alla til að panta miða, það verður enginn svikinn af því. Leikritið er sprenghlægilegt, margir með leiksigur á sviðinu og flottir söngvarar að rúlla upp gömlu Stuðmannalögunum sem eru orðin hálf rótgróin í íslenskri menningu. En ég er ótrúlega spennt að fá að sitja í salnum með öðrum áhorfendum og heyra viðbrögðin. Þá kannski sérstaklega fyrir atriðum eins og skyggnilýsingum Dúdda, Stuðmannadansinum og Torfa Töframanni, svona til að nefna nokkur. Því eftir allan þennan tíma sit ég samt ennþá út í sal og emja af hlátri,“ segir Karen og blaðamaður getur staðfest það sem hún segir eftir að hafa verið viðstaddur hluta úr æfingu.

Þá segir Karen að stjórn Píramusar & Þispu hafi stungið upp á að setja þetta verk upp í ár. „Fyrir mér var það svokallaður “no brainer”, því þetta verk hentar þessum hóp fullkomlega. Og ég held að allir sem mæta á sýningu eigi eftir að geta tekið undir það með mér. Ég vona í það minnsta að áhorfendur labbi út og hugsi “vá hvað það var gaman,“ segir Karen að lokum.

gærur

Rútan

gærur í rútui

sýningar næstu

 

Nýjast