13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Stofnuðu leikhús 8 ára gamlar
Þær Dögun Rós Steinarsdóttir og Helena Potrykus 8 ára eru hugmyndaríkar stúlkur sem búa á Þórshöfn. Þrátt fyrir ungan aldur er metnaður þeirra í takt við gríðarlegan leiklistaráhuga en þær stofnuðu Smálandaleikhúsið einar síns liðs. Eða næstum því, Aleksandra, litla systir Helenu tekur fullan þátt með þeim.
Nýverið settu þær upp leiksýninguna Emil og Ída í Kattholti. Dögun og Helena fóru sjálfar með aðalhlutverk en fengu þær Írenu Móey Þorsteinsdóttur og Alexöndru Potrykus til að fara með aukahlutverk. Þá vantaði þær einnig leikara til að fara með hlutverk pabba hans Emils en þær dóu ekki ráðalausar, heldur báðu Odd Skúlason, starfsmann íþróttamiðstöðvarinnar á Þórshöfn að taka hlutverkið að sér, sem hann og gerði með glöðu geði.
Vinkonurnar söfnuðu 117 þúsund krónum til styrktar bágstöddum í Úkraínu en peningana færðu þær Rauða krossinum
Þær fengu íþróttahúsið á Þórshöfn lánað til að halda sýningarnar og áhorfendur greiddu fyrir miða sína. Vinkonurnar voru alltaf ákveðnar í að styrkja gott málefni en að sögn Odds var handritið klárt áður en stríðið í Úkraínu braust út.
Stúlkunum hefur tekist að safna alls 117 þúsund krónum sem þær ætla að leggja inn á Rauða krossinn. Önnur sýningin fór fram um síðustu helgi en leikararnir voru með Úkraínu fánann á handarbakinu. Í upphafi lögðu þær upp með að halda sex sýningar en hafa ekki ákveðið framtíðar dagsetningarnar enn sem komið er.
Móðir Helenu og Aleksöndru, hún Anita Potrykus sagði í samtali við Vikublaðið að þrátt fyrir ungan aldur þá væri leiklistarbakterían aldeilis ekki nýtilkomin. „Nei, það er gaman að segja frá því að áhugi stúlknanna á leikhúsi byrjað miklu fyrr. Fyrsta „alvöru“ sýningin með áhorfendum fór fram síðasta sumar, fyrir framan húsið okkar,“ segir Anita en áhorfendur voru foreldrar, nágrannar og vinnumenn. Það þarf vart að taka það fram að sýningin vakti mikla lukku.
Dögun, Helena og Aleksandra voru svo almennilegar að svara nokkrum spurningum fyrir Vikublaðið en reikna má með því að viðtölum fjölgi þegar fram líða stundir miðað við metnað þeirra.
Dögun:
Er gott að búa á Þórshöfn?
Já, því hún (staðurinn) er svo lítil
Hvenær byrjaði leiklistaráhuginn hjá ykkur?
Í 2. bekk þegar við vorum að undirbúa árshátíð
Ætlið þið að verða leikkonur þegar þið verðið stórar?
Já
Einhverjir uppáhalds leikkonur/leikarar?
Já Þórdís sem leikur Dídí í Benedikt Búálfur og Króli
En uppáhaldspersónur úr leikritum?
Ída og Emil í Emil í Kattholti.
Eruð þið aldrei með sviðsskrekk?
Nei aldrei.
Ætlið þið að setja upp fleiri leikrit í framtíðinni?
Já erum að skoða Línu langsokk. Helena ætlar þá að leika Línu, ég Önnu og frændi Helenu sem er 6 ára getur kannski leikið Tomma, eigum eftir að spyrja hann.
Alksandra og Helena:
Hvað eruð þið gamlar?
Aleksandra 6 ára og Helena 8.
Er gott að búa á Þórshöfn?
Já mjög gott að því að hérna eru vinir okkar og fjölskylda og hundurinn okkar og alltaf nóg að gera!
Hvenær byrjaði leiklistaráhuginn hjá ykkur?
Þegar við fórum í fyrsta sinn til Leikhúsið á Akureyri á Benedikt Búálfur- það var svo skemmtilegt!
Ætlið þið að verða leikkonur þegar þið verðið stórar?
Helena: Já! Aleksandra: Kannski, eða söngvari eða dýralæknir
Einhverjir uppáhalds leikkonur/leikarar?
Helena: Já !!! Dögun Rós , vinkona mín! ( svaraði hún með stóru brosi).
En uppáhaldspersónur úr leikritum?
Helena: Ída frá Emil í Kattholti. Aleksandra: Dídí mannabarn.
Eruð þið aldrei með sviðsskrekk?
O,já. Alltaf !!!
Ætlið þið að setja upp fleiri leikrit í framtíðinni?
Auðvitað að því að það er svo gaman!