Uppruni jólakorta - Lauslega þýtt úr dönsku

Rafn Sveinsson
Rafn Sveinsson

Þegar fyrsta jólakortið var búið til um það bil árið 1800 á Englandi þá fékk það mikla athygli og með byr því að mörgum fannst það leiða athygli að jólum og sýna rétta jóla­andann og varð það fjótt nokkuð vinsælt meðal Breta.

Við þekkjum öll að jólin eru hátíð ljóss og friðar og á jólum sameinast fjölskyldur og vinir og við hugsum meira til vina og kunningja en á öðrum tímum.  Jólakort hafa verðið þessi góði máti til þess að senda jóla- og vinarkveðju til þeirra sem við viljum gleðja á þessum tíma. Þessar kveðj­ur eru óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár, þetta er afar fallegur og góður siður og það gleður marga að fá fallega kveðju á fallegu jólakorti í svartasta skamm­deginu.

Það er talið að Kínverjar og Egyptar hafi byrjað að senda kveðjur á kortum fyrir 3000 árum og þaðan hafi þessi siður borist til Evrópu og hins vestræna heims.

Í upphafi voru þessar kveðjur sendar í byrjun desember svo að þau gætu staðið á arinhillunni svo að fólk gæti notið þess alla að­ventuna og jólin og fram á nýtt ár.   Það sem á þeim stóð var oftast eitthvert biblíuvers, bæn, lítið kvæði eða eitthvað sem að minnti á vorið eða birtuna sem fólk var farið að bíða eftir á þessum dimmasta tíma. Oft voru líka send kort í tilefni árstíðaskipta svo sem um vor og sumar.

Jólakortið rakið  til ársins 1843

Jólakortið eins og við þekkjum það í dag á rætur sínar að rekja til ársins 1843, það var Englendingur­inn Henry Cole sem að í samvinnu við bresku póstþjónustana fékk þá hugmynd að búa til jólakort. Fáum árum áður hafði frímerkið verið tekið í notkun en þá var hægt að senda kort fyrir 1 penny svokallaðan the penny post um allt England. Þetta nýtti Henry Cole sér, hann lét útbúa kort með jólakveðju þar sem að fólk gat skrifað nafn móttakanda og sitt nafn undir.  

Fyrsta kortið eftirsótt  af söfnurum

Talið er að fyrsta teiknaða jóla­kortið hafi verið teiknað af John Callcott Horsley en hann teiknaði mynd af þremur persónum manni, konu og unglingsstúlku sem að voru að lyfta kampavínsglasi og á kortinu stóð A Merry Christmas and happy new year to you. Þetta kort þótti kannski ekki sýna rétta jóla­andann þar sem að unglings­stúlkan var með vín í glasi og hlaut höfundurinn ákúrur fyrir. Þrátt fyrir þetta var kortunum vel tekið og þau seldust upp. Í dag er þetta kort afar eftirsótt af söfnurum og  árið 2001 var eitt svona kort selt á uppboði á Englandi að jafnvirði 3,2 miljóna isl króna.

Það var svo ekki fyrr en 30 árum seinna að prentmiðjan Prang og Mayer fóru fyrir alvöru að prenta og framleiða jólakort sem að náðu gríðarlegum vinsældum bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn vilja nú meina að Luis Prang eigi hugmyndina að jólakortunum en allavega kom hann þessu af stað þar með því að prenta kort í 20 litum. Þetta var gífurleg framför og voru kortin í alla staði miklu vandaðri og fallegri kort, prentuð á betri  pappír en  þau sem að Bretar höfðu verið með. Árið 1880 fram­leiddu þeir um 5 miljónir jólakorta.

Það er svo 1882 sem að Danir tóku við sér með að senda jólakort kannski eitthvað af þeim hafi borist til Íslands  en það var prent­fyrirtækið Levisons í Köben sem  framleiddi þessi fyrstu kort. Á þeim var mynd svo kölluðum Nisse og engil sem að sátu á trjá­grein en þessi Nisse þeirra Dana er lítill karl í brúnum bol og með rauða skotthúfu og í rauðum sokk­um og að sjálfsögðu í tré­klossum.

Vinsældir jukust

Á næstu árum varð mikil aukning í útgáfu á jólakortum og vinsældir þess að senda svona kveðju til vina og kunningja jukust ár frá ári. Það voru svo bræðurnir Joyce og Rolling Hallmark sem að stofnuðu prentsmiðjuna Hallmark árið 1913, þeir nánast yfirtóku alla útgáfu á jólakortum og er Hallmark enn að. Jólakortunum fóru svo að fylgja jólafrímerki, árið 1904 gáfu Danir út sitt fyrsta Jólafrímerki. Það var gefið út til styrktar berkla­veikum börnum en þetta merki var að sjálfsögðu með mynd af þá­verandi drottningu, Luise. Ágóð­inn af sölu þessara merkja varð til þess að byggt var sérstakt hús fyrir berklaveik börn í Danmörku. Þetta hús er enn í notkun en nú fyrir börn sem að eiga í vandræð­um.

Árið 1905 verður en breyting á jólakortunum, nú gat fólk skrifað  texta aftan á kortið en áður hafði bara verið prentaður texti framan á og einungis hægt að skrifa nafn móttakanda og nafnsendanda undir. Vinsældir kortana jukust til muna við þetta.

Í Bandaríkjunum höfðu jóla­korta sendingar verið heldur róleg­ar lengi vel, til dæmis sendi Hvíta húsið um 200 kort árið 1953 þegar Eisenhower forseti var við völd en árið 2005 þá voru send út frá Hvíta húsinu 1,4 miljónir jóla­korta. Þetta segir dálítið til um vinsældir þeirra.

 Blikur á lofti  – allt komið í tölvur

Nú eru blikur á lofti því að nú eru komnar tölvur og það leiðir af sér að í gegnum þær er hægt að senda alls konar kveðjur og mikil aukning er í því að fólk sendi jólakveðjur sín á milli í þessum miðli. Líka er hægt að senda í gegnum útvarp,  könnun var gerð í Danmörku fyrir nokkrum árum sem sýndi að 39% af jólakveðjum voru sendar með þessum hætti í dag hefur þetta marg­faldast og sendingar jólakorta hefur snar minkað, það er helst að eldra fólk heldur í þennan gamla góða sið, að senda persónu­lega jólakveðju til vina og kunningja.

Í gegnum árin hafa margir safnað jólakortum og að sjálfsögðu hafa elstu kortin mesta söfnunar­gildi, samanber verð á korti sem að seldist á 3,2 miljónir isk. á uppboði í Bretlandi árið 2001.    Kort  merkt Queen Mary  eru líka mjög verðmæt fyrir safnara,  margir safna kortum eftir ákveðna teikn­ara eða með vissum myndum. Langi ykkur til þess að sjá eitt af þessum fyrstu kortum þá er það hægt á Victoria and Albert museum í London en það er kortið sem Henry Cole átti þátt í að var framleitt árið 1843.

Stærsta jólakortasafnið

Eitt stærsta safn jólakorta hefur tilheyrt Englendingnum Jonatan Rug, en hann hafði sett sér það takmark að safna öllum kortum sem að komu út frá 1843 til 1890. En talið er að í safni hans séu 163 þúsund kort en nú eru menn hættir að telja korti og farnir að vikta þau. Þegar síðast var viktað reyndist þyngdin vera um 7 tonn.

Flest okkar geyma kannski eitt og eitt kort sem að hafa einhverja persónulega þýðingu fyrir okkur, svo sem myndir af börnum eða barnabörnum eða falleg heima­gerð kort. 

Jólakort eru falleg og góð kveðja sem að veita mörgum gleði þegar að þau eru lesin, þau gefa okkur þá vitneskju að eftir okkur sé munað og hugsað sé til okkar, það veitir okku hlýju og ánægju.

Því segi ég!

Kæru vinir ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og alls góðs á nýju ári.

JÓLAKVEÐJA!

Rafn Sveinsson.

 

Nýjast