Stöðugur straumur á bás Samherja og Ice Fresh Seafood í Barcelona - Aðsóknarmet slegið -

Bás Samherja og Ice Fresh Seafood: Stöðugur straumur gesta frá morgni til kvölds/ myndir samherji.is
Bás Samherja og Ice Fresh Seafood: Stöðugur straumur gesta frá morgni til kvölds/ myndir samherji.is

Alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni Seafood Expo Global í Barcelona lauk í gær, fimmtudag. Samherji og Ice Fresh Seafood voru með veglegan bás á þessari stærstu sjávarútvegssýningu heims á sviði veiða, vinnslu og sölu sjávarafurða. 2.244 fyrirtæki taka þátt í sýningunni frá 87 þjóðlöndum.

Fundir frá morgni til kvölds

Steinn Símonarson aðstoðarframkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood, sem selur afurðir Samherja og fleiri fyrirtækja, segir að sýningin í ár hafi tekist einstaklega vel, líklega hafi gestir á bás félaganna aldrei verið fleiri en í ár.

„Við erum afskaplega ánægð, enda hefur verið stöðugur straumur gesta til okkar og starfsfólk okkar er með bókaða fundi frá morgni til kvölds. Þetta eru fundir með fulltrúum fyrirtækja sem hafa verið í viðskiptum við okkur í áratugi og svo fyrirtækjum sem eru að kynna sér afurðirnar sem við erum með á boðstólum. Básinn okkar er á tveimur hæðum og öll aðstaða er eins og best gerist. Veitingastaðurinn vekur mikil athygli, enda segjum við hiklaust að hann sé sá besti á sýningunni.“

 

Skálað að loknu góðu dagsverki. Frá vinstri: Gyða Birnisdóttir, Aron Gauti Magnússon, Auður Jónasdóttir, Birgir Össurarson, Ingibjörg Aradóttir, Hanna Dóra Hermannsdóttir, Lára Halldórsdóttir. Fyrir aftan: Celine Mathey, Jónas Baldursson.
 

Aðsóknarmet

Steinn segir að allt skipulag á básnum þurfi að vera hnitmiðað.

„Já, reynslan hefur kennt okkur að góður undirbúningur skilar sér í flestum tilvikum. Okkar markmið er ekkert sérstaklega að ganga frá samningum, heldur fyrst og fremst að treysta viðskiptasambönd. Sala, veiðar og vinnsla haldast í hendur, sem vill stundum gleymast í allri umræðunni heima á Íslandi um sjávarútveg. Þessi sýning er sú stærsta til þessa og gestir á básnum hafa aldrei verið fleiri en í ár, sem er virkilega ánægjulegt. Þegar sýningunni lýkur í kvöld, hefst svo undirbúningur fyrir næstu sýningu hérna í Barcelona, það er bara þannig,“ segir Steinn Símonarson.

Nýr matvælaráðherra heimsótti básinn

Meðal gesta á bás Samherja og Ice Fresh Seafood var Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra. Hún ræddi við starfsfólk og gæddi sér á íslenskum sjávarafurðum. Einar Geirsson matreiðslumeistari og eigandi veitingastaðarins RUB 23 á Akureyri hefur í um tvo áratugi séð um matreiðslu á básum Samherja og svo er einnig að þessu sinni.

Frá vinstri: Einar Geirsson, Gyða Birnisdóttir, Celine Mathey, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Vincent Ribo

Leiðandi í framleiðslu hágæða fiskafurða

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segir að samkeppnin í alþjóðlegum sjávarútvegi sé hörð, því sé lykilatriði að kynna sem best frábært íslenskt hráefni og rækta traust viðskiptasambönd.  „Básinn okkar er vel staðsettur og vel búinn á allan hátt. Persónuleg samskipti koma seint eða aldrei í stað rafrænna samskipta. Hérna hittum við persónulega svo að segja alla okkar viðskiptavini og treystum sambönd. Ég er afar stoltur af frábæru starfsfólki Samherja og Ice Fresh Seafood, sem leggur mikið á sig til að ná góðum árangri. Þessi sýning undirstrikar enn og aftur að Samherji er leiðandi í framleiðslu á hágæða fiskafurðum fyrir kröfuharða viðskiptavini.“

Það er samherji.is sem fyrst sagði frá

 

Nýjast