Steikt slátur, saltket og baunir, soðbrauð og kleinur
„Við hjónin á Syðra-Laugalandi höndlum auðvitað keflið og tökum þessari áskorun, enda miklir matgæðingar ef ekki gourmets et connaisseurs. Allir sannir matgæðingar sletta að sjálfsögðu frönsku af slíku tilefni á þessu sviði,“ segja hjónin Svava og Hannes Örn Blandon á Syðra-Laugalandi í Eyjafjarðarsveit. Anna Ringsted skoraði á þau að leggja til uppskriftir í blaði dagsins.
„Þá er það hin fyrsta uppskrift en hér hnjótum við um nokkrar hindranir og hnökra, því vandinn er sá að ekki kunnum við neinar uppskriftir og verðum því að varpa þessu fram hips um haps sem er heppilegt fyrir þá sem hafa gott ímyndunarafl.“
Steikt slátur fyrir tvo að hætti mömmu og ömmu
Þú tekur meðalstóran sláturkepp, blómur eins og skáldið sagði (má ekki vera súr) og sneiðir hann í þverhandarþykkar sneiðar. En áður en þú steikir blómurinn sýður þú sex kartöflur (helst úr eigin garði) og í sama mund lagarðu jafning (uppstú hét það á mínu heimili) og er það gjört á svofelldan máta:
Þú bræðir fimmtíu grömm af íslensku smjöri, slettir í það þrem slettum af hveiti og hrærir vel. Hér er gott að varpa nokkrum kornum af matarsalti, pipar og um það bil hnefafylli af sykri í soppuna. (Hér skal þess getið að hnefar eru auðvitað misstórir og máski betra að nota kvenkyns slíkan.)
Hér er svo mjólkinni hellt út í og jafningurinn hrærður hæfilega þykkur og auðvitað eftir smekk.
Nær þessu er lokið er komið að því að bræða 45-47 grömm af sméri á pönnu og steikja slátrið, en þó ekki um of.
Sumum þykir gott að bera það fram sykrað (það þótti ömmu) en þetta er að sjálfsögðu smekksatriði líka.
Við stingum upp á Bloody Mary sem fordrykk og íslensku vatni, nú eða mjólk, með málsverði.
Voila!!! Bon appetit !
Saltket og baunir að hætti mömmu og ömmu o.s.frv. o.s.frv....
Þessi réttur er í gríðarlegu uppáhaldi hér á Laugarlandi syðra og snæddur við flest hátíðleg tækifæri en ekki nógu oft að mér finnst (Hannesi). Við byrjum á því að gera pækil þanning að við tökum fram pott og setjum á hlóðir og sjóðum þrjá lítra af vatni og setjum slatta af kjötsalti út í og kælum síðan. Hér höfum við þann háttinn á að setja eina kartöflu (helst úr eigin garði) út í pækilinn. Og nær kartaflan flýtur er tímabært að leggja ketið oní löginn.
Og þar sem þetta er uppskrift fyrir tvo duga hér þrír til fjórir bitar af sæmilega feitu súpukjöti og auðvitað er best heimaslátrað, helst nýkomið af fjalli.
Kjötið liggur síðan í leginum í tvo-þrjá sólarhringa.
Sólarhring fyrir neyslu leggjum við baunir (gular til að forðast misskilning) í vatn.
Þrem tímum fyrir neyslu sjóðum við baunirnar sem við bragðbætum með hálfum lauk, smásöxuðum. Bætum út í þremur sneiddum gulrótum (helst úr garðinum), „un peu“ (franskt matargerðartungumál) af hvítum pipar og sykri. Því næst hellum við „un peu“ af saltkjötssoði í súpuna til að fá rétt „gout“ eða „saveur“ eins og við segjum á matargerðarfrönsku.
Með réttinum eru bornar fram kartöflur og rófur (helst úr eigin „jardin“ eins og við segjum á matargerðarfrönsku) og soðbrauð. Soðbrauð þetta er ættað úr Skreðdal austur og þykir ómissandi þar og sömuleiðis hér á Laugarlandi syðra.
Soðbrauð
Nú!!!. Það er sirka þannig búið til að þú tekur þrjá bolla af rúgmjöli og setur í skál. Því næst tekur þú dreytil af sjóðandi heitu saltkjötssoði og hellir í þá sömu skál. Síðan tekur þú til við að elta item hnoða deigið þar til það hættir að loða við lófana. Svo mótar þú lófastórar (fer eftir stærð lófans) þverhandarþykkar hringlaga kökur með gati í miðjunni. (Þetta er mjög mikilvægt).
Kökurnar lætur þú malla ofan á saltkjötinu í sirka fimmtán mínútur en gætir þess að soðið fljóti ekki yfir soðbrauðin. Með þessu er gott að bera fram tár (mega vera nokkur) af brennivíni íslensku og öli (má vera pilsner).
A votre santé et bon appetit!
Heimsins bestu kleinur
Þetta er eina prívat uppskriftin sem fannst á heimilinu. Hún er einnig ættuð úr Skreðdalnum frá Huldu í Birkihlíð. Bestu kleinur í heimi. (Le meilleur kleins dans le Monde)
1 kg hveiti
250 til 300 g sykur
Tvær og hálf teskeið lyftiduft
Ein teskeið kardimommudropar
Þrjú egg
Fjórir desilítrar súrmjólk
Ein matskeið kúmen
Deigið hnoðað og elt og kleinur skornar á hefðbundinn hátt og steiktar í framhaldi.
Bornar fram og bestar með kaldri mjólk, beint frá býli.
Verði ykkur að góðu!