27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Sölkusiglingar seldar til Norðursiglingar
Á dögunum gengu Sölkuveitingar ehf. og Norðursigling hf. frá samningi um kaup Norðursiglingar á öllum hlut Sölkuveitinga í hvalaskoðunarfyrirtækinu Sölkusiglingum ehf. Kaup Norðursiglingar eru liður í því að efla kjarnastarfsemi fyrirtækisins sem er hvalaskoðun á Skjálfanda. Sölkuveitingar ehf. munu í framhaldi af sölunni jafnframt einbeita sér að rekstri veitingahússins Sölku. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var fjölmiðlum.
Stefán Jón Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar segir félagið sjá tækifæri í því að styrkja hvalaskoðun á Skjálfanda enn frekar með því að taka yfir rekstur Sölkusiglinga. „Við finnum fyrir miklum ferðavilja eftir síðustu tvö ár og teljum mikilvægt að vera vel í stakk búin til að taka á móti auknum fjölda ferðamanna. Við hlökkum til að vinna áfram að eflingu hvalaskoðunar á Skjálfandaflóa og tryggja gestum einstaka náttúruupplifun á komandi árum.“
Börkur Emilsson, einn af eigendum Sölkuveitinga, segist ásamt meðeigendum sínum ganga stoltur frá uppbyggingu á Sölkusiglingum. „Á þessum tímapunkti viljum við einbeita okkur að eigin kjarnastarfsemi sem er rekstur á veitingahúsinu Sölku. Það hefur mikið áunnist frá því að við hófum hvalaskoðun og við höfum sannarlega lagt okkar af mörkum í að efla þá þjónustu sem veitt er til innlendra sem erlendra ferðamanna á Húsavík. Við hlökkum til að taka áfram á móti öllum okkar gestum á veitingahúsinu Sölku.“
Með þessu fyrirkomulagi vilja báðir aðilar stíga skref í átt að því að tryggja frábæra upplifun gesta og framúrskarandi þjónustu bæði á sviði afþreyingar og veitinga. Áfangastaðurinn Húsavík er og verður áfram í sókn.