„Snýst um að gera sitt besta"

Dagfríður Ósk.
Dagfríður Ósk.

Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem unnið var af nemum í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

Dagfríður Ósk rekur Instagram síðuna Hvað getur ein fjölskylda ásamt manni sínum. Hún telur jólin einkennast af stressi fyrir of marga og vill að við hægjum á okkur í skammdeginu og munum hvað er mikilvægt. Í september hélt Dagfríður nokkra fyrirlestra. Fyrst var hún með fyrirlestur um plastlausan september á bókasafninu á Akureyri sem leiddi til þess að aðrir höfðu samband og báðu hana um að halda sama fyrirlestur hjá sér. Hún fór meðal annars á Sauðárkrók, í Mývatnssveit og í grunnskólann á Svalbarðsströnd. Þar talaði hún um vegferð fjölskyldunnar til að minnka kolefnislosun sína. Þar talaði hún um samgöngur, mataræði og það sem þau versla. Þegar hún þurfti að undirbúa sig undir mjaðmaaðgerð varð hún að stoppa sig af.

„Ég er sem sagt gift, maðurinn minn heitir Óli Steinar, og við eigum tvö börn; sjö ára strák og fimm ára stelpu. Svo eigum við líka sjö ára labrador“, segir Dagfríður þegar blaðamaður jólablaðsins hittir hana á Bláu könnuni. Það er kominn vetur en lítill snjór og skammdegið er farið að minna á sig með kunnulegum vetrarkulda. Dagfríður er 27 ára gömul, hún er með BA-gráðu í sálfræði úr Háskólanum á Akureyri síðan vorið 2018. Óli er þrítugur, hann er í meistaranámi í leikskólakennarafræðum við Háskólann á Akureyri og stefnir á að klára það í vor. Saman reka þau svo Instagram síðuna Hvað getur ein fjölskylda. „Kveikjan að þessu verkefni var eiginlega að mig vantaði eitthvað að gera“ segir Dagfríður og hlær. Hún þurfti að gangast undir mjaðmaaðgerð í fyrravetur og hefur verið óvinnufær í kjölfarið. Þau fluttu á Akureyri fyrir þrem árum frá Grundafirði, vegna þess að þau vildu prófa eitthvað nýtt, og eru svo ánægð að þau hafa fest kaup á íbúð.

Ekki gera ekki neitt

Instagramið varð ekki bara til því Dagfríði vantaði verkefni heldur hefur fjölskyldan lengi verið þenkjandi um umhverfið. „Við fundum fyrir umræðunni í þjóðfélaginu og fyrir rúmu ári þá fórum við að hugsa og vildum gera almennilegar breytingar. Síðasta vetur voru sýndir þættirnir Hvað höfum við gert? á RÚV, þá fengum við smá sjokk og sáum að við vildum ekki bara horfa á þessa þætti og halda áfram með líf okkar. Við þurftum að gera raunverulegar breytingar“. Að stofna Instagram-reikning fyrir átakið var ákveðið á einu kvöldi og Dagfríður hellti sér í verkefnið. Það stóð til að fara vel út fyrir þægindarammann en þau hafa fengið miklu meiri viðbrögð en þau bjuggust nokkurntímann við. „Ég hélt þetta yrði fyrir sameiginlega Facebook vini okkar, en ekki næstum 3000 manns. Það sýnir áhugann og þörfina fyrir svona síðu. Það er okkur hvatning til að halda áfram og gera vel“.

Dagfríður segist ekki vilja bíða eftir að aðrir taki til hendinni. Ef einn gerir eitthvað þá getur ósjálfrátt farið af stað bylgja sem hefur áhrif þegar margir koma saman. Það skiptir máli að allir geri eitthvað í sínum málum til að skapa umhverfisvænni heim. „Það er algjörlega punkturinn í þessu. Það er fullt sem við getum gert og saman getum við breytt miklu. Það er ekki bara hvað er búið og gert heldur hvað getum við gert“.

Nútímasamfélag einkennist af hraða, streitu og kvíða. Dagfríður fer ekki varhuga af því en segir að umhverfisvænn lífsstíll dragi úr streitu: „Þegar maður fer að taka ákvarðanir í þágu umhverfisins og setur sér skorður verður maður pínu stikkfrí. Þó heimilið sé ekki innréttað samkvæmt nýjustu tísku, er það umhverfisvænt og það er töff. Fyrirlestrarnir voru í rauninni um okkar vegferð. Ég setti þetta upp þannig að ég sýndi hvaða skref við værum að taka til að minnka okkar kolefnislosun. Það innihélt samgöngur og mataræði og það sem við verslum, eins og að kaupa notað og að endurnýta. Allt þetta telur“.

Umhverfisvænt verður eðlilegt

Dagfríður telur að allar breytingar sem þau foreldrarnir geri á sínum hugsunarhætti séu börnin fljót að ná og ekki þurfi að setja þeim skorður. Lífsstíllinn og hugmyndafræðin verður eðlileg með tímanum. „Við höfum aldrei verið með fyrirlestur, við höfum aldrei sagt börnunum okkar að nú séum við umhverfisvæn og allt annað sé bannað. Þetta á ekki að vera kvöð en við erum að endurhugsa þær ákvarðanir sem við tökum“. Þetta snýst ekki um boð og bönn, heldur að gera eitthvað jákvætt í staðinn.

Dagfríður nefnir að hún hafi hugsað til þess hvort börnin hennar yrðu vonsvikin yfir því sem gæti vantað. „Ég varð stressuð þegar ég áttaði mig á að kannski myndi dóttir mín spyrja af hverju engar blöðrur væru í afmælinu hennar í sumar, en ég útskýrði að við ætluðum ekki að kaupa blöðrur því við getum notað þær svo stutt. Við erum að æfa okkur í að kaupa hluti sem við getum notað lengur“. Það er ákveðin æfing að kaupa bara hluti sem má endurnýta en í sjálfu sér skemmtileg áskorun. En hvað með gjafir? „Stundum þarf að stoppa sig af, ég finn alveg fyrir pressu líka og það er pressa á foreldrum. Í afmæli dóttur okkar í sumar báðum við um notaðar gjafir og hún sér í raun engan mun á því. Strákurinn okkar sér hvað er notað og hvað er nýtt úr búðinni, en fyrir honum eru þetta bara leikföng. Það kemur á óvart, því stundum ákveður maður fyrir börnin sín hvað þau vilja og þeirra væntingar. Svo eru þau voða sátt með hvað þau fá“. Dagfríður telur mikilvægt að fylgja ekki alltaf nýjustu tísku einfaldlega því það er ekki gott fyrir okkur sjálf og alls ekki gott fyrir umhverfið.

Umhverfisvæn jól

Sjá má á Instagram að Dagfríði og fjölskyldu er umhugað um bæði jólin og umhverfið. Hún deilir með okkur góðum ráðum til að halda aðeins umhverfisvænni jól. Það sem stendur uppúr er að gefa góða samveru. Það býst í rauninni enginn við hinni fullkomnu gjöf, enda er slíkt varla til. Dagfríði finnst skipta mestu máli að við minnum okkur á að tilgangurinn bakvið jólagjafir sé að gleðja þá sem okkur þykir vænt um. „Ef við finnum að jólagjafa innkaupin valda okkur streitu og vanlíðan, getur það verið tilefni til að stíga aðeins til baka og velta fyrir sér hvort hægt sé að einfalda hlutina. Í mínum huga eru umhverfisvænni jólaundirbúningur nátengdur því að minnka kröfurnar á okkur sjálf og leyfa okkur að líða betur á þessum yndislega tíma sem jólin eru“. 

Vegna þess að það á að vera skemmtilegt að gefa, stingur Dagfríður einmitt upp á að gefa samveru. Það er nefnilega dýrmætast af öllu að eyða tíma saman, hitta ömmu og afa eða frændur og frænkur og spila, horfa á góða mynd eða bara hvað sem er. Það eru gjafirnar sem allir kunna að meta, og allir muna eftir.

Ef allir gera pínulítið sitt besta, þá græða allir

Dagfríður segir það ákveðinn létti að þurfa ekki að fara í Kringluna, Glerártorg eða hvað það er. „Ég ætla bara að sleppa þessu“. Einnig setur hún sér skorður með útsölur og hvað hún kaupir almennt. „Ég var sjúk í útsölur en á sama tíma var ég stressuð því ég hugsaði hverju ég væri að tapa! Hverju ég gæti tapað á að kaupa ekki, núna er ég bara hætt og forðast útsölur“. Hún segir það ákveðinn létti. Það má segja fólkinu sínu að nú ætli fjölskyldan að gefa heimatilbúnar gjafir og taka ákvarðanir í þágu umhverfisins, og ekki kaupa neitt nýtt. Það er hægt að láta fólk vita, sem er jákvætt og ýtir undir samskipti sem þurfa að eiga sér stað. „Þetta er eins og með notaðar gjafir, það er nýtt hjá okkur en merkilegt nokk að síðan við byrjuðum á þessu hafa verið mörg barnaafmæli í fjölskyldunni og margir spyrja sig af hverju við séum ekki löngu byrjuð á þessu“. Það er merkilegt að öllum finnst eðlilegt að gefa áfram bækur eða leikföng hvaða dag sem er, en þegar það er í jóla- eða afmælisgjöf þá er það óeðlilegt. Dagfríði finnst að þessu megi breyta.

Við endum samtalið á umhverfisvænu nótunum; „Þetta virkar líka fyrir fullorðna, eins og að gefa áfram bækur. Ef þú átt bók sem þú elskar er ekkert að því að gefa hana áfram til einhvers sem þér þykir vænt um“.

-BLG

Nýjast