Slys á vatnsverndarsvæði Norðurorku

Frá slysstað í morgun.   Myndir No
Frá slysstað í morgun. Myndir No

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum varð alvarlegt rútuslys við Fagranes í Öxnadal í gær. Viðbúnaður viðbragðsaðila var mikill og aðkoma starfsfólks Norðurorku einnig þar sem slysið varð inn á vatnsverndarsvæði fyrirtækisins sem nær m.a. inn að vatnaskilum á Öxnadalsheiði

Fljótlega kom í ljós að mikilvægt væri að grípa til aðgerða til að fyrirbyggja að mengunin hefði áhrif á vatnsverndarsvæðið. Neysluvatnsdæling frá vatnstökusvæðinu á Vöglum var stöðvuð af öryggisástæðum og mengunarvarnabúnaði komið fyrir í og við ána. Árkvísl sem liggur næst veginum var stífluð ofan við slysstað til að stöðva vatnsrennsli við mengaðan árbakkann. Þegar mengaður jarðvegur var grafinn upp safnaðist fyrir olía í holunni og var gripið til þess ráðs að brenna olíuna til að eyða henni á staðnum og fyrirbyggja að hún færi lengra. Seinna kom dælubíll á staðinn og var olíunni þá dælt upp.

Mat Norðurorku og Heilbrigðiseftirlitsins er að búið að sé að ná stjórn á aðstæðum og tryggja að olíulekinn hafi ekki áhrif á vatnstökusvæðið sjálft. Neysluvatnsdæling frá Vöglum er því hafin að nýju. Starfsfólk Norðurorku og verktakar eru enn á staðnum að hreinsa upp mengaðan jarðveg og ferja hann út af vatnsverndarsvæðinu.

Frá slysstað í morgun

Ljóst er að þetta mengunarslys er það umfangsmesta sem orðið hefur á vatnsverndarsvæði Norðurorku. Skjót og rétt viðbrögð skipta sköpum við aðstæður sem þessar en unnið er samkvæmt viðbragðsáætlun vatnsveitu og neyðarstjórn Norðurorku var virkjuð.

Þetta segir í yfirlysingu frá Norðurorku um málið rétt í þessu 

Nýjast