Slökkvilið Akureyrar fékk nýjan stigabíl
Í gær fékk Slökkvilið Akureyrar formlega afhentan nýjan og fullkominn stigabíl frá framleiðandanum Echelles Riffaud í Frakklandi. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.
Bíllinn er af gerðinni Scania með 33 metra björgunarstiga sem ber körfu fyrir fjóra einstaklinga og tekur ekki nema um 90 sekúndur eftir að bifreiðin hefur verið stöðvuð að koma körfunni upp í hæstu stöðu.
Bíllinn er búinn nýjasta tæknibúnaði á sviði björgunar, m.a. fjarstýrðum slökkvistút, hitamyndavél, festingu fyrir sjúkrabörur, rafstöð og öðrum mikilvægum aukabúnaði. Hann leysir af hólmi gamla körfubíl slökkviliðsins sem er orðinn 36 ára gamall.
Þetta er í fyrsta sinn sem slökkvilið utan höfuðborgarsvæðisins kaupir nýjan bíl af þessu tagi og einnig er þetta fyrsti nýi björgunarstigabíllinn sem íslenskt slökkvilið festir kaup á en Brunavarnir Árnessýslu fengu raunar sams konar bíl sem verður vígður á allra næstu dögum.
„Það er von okkar og trú að þessi kaup verði til þess að efla til muna öryggi íbúa á starfssvæði SA og auka getu slökkviliðsins til að takast á við bæði stór og smá útköll," segir Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri sem er að vonum ánægður með þessa viðbót við bílaflota liðsins.