20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Slippurinn Akureyri Samið um nýja og afkastameiri handflökunarlínu
Slippurinn Akureyri og fiskvinnslan Hólmasker í Hafnarfirði hafa gert með sér samning um smíði og uppsetningu á nýrri handflökunarlínu sem er sú fyrsta sinnar tegundar í framleiðslu DNG fiskvinnslubúnaðar hjá Slippnum Akureyri.
Línan er hönnuð og smíðuð af starfsmönnum Slippsins í Grindavík og er áformað að hún verði sett upp í vinnslustoppi hjá Hólmaskeri í kringum jólin. Um 90% hráefnisins hjá Hólmaskeri er handflakað og verður nýja handflökunarlínan með 10 vinnustöðvum í stað 8 í núverandi línu.
Óli Björn Ólafsson, sölumaður hjá starfsstöð Slippsins í Grindavík segir hönnun og framleiðslu á handflökunarlínunni fyrir Hólmasker koma í beinu framhaldi af þróun á hugbúnaðarlausn í Promas framleiðsluhugbúnaðinum sem Slippurinn Akureyri framleiðir.
„Upphaflega þróuðum við Promas hugbúnaðarlausn á vormánuðum 2023 til að nota við heilfiskflokkara sem DNG framleiddi fyrir viðskiptavin. Kerfið heldur utan um allar framleiðsluupplýsingar vinnslunnar og mun nú með sama hætti halda utan um fjölbreyttar upplýsingar fyrir nýju handflökunarlínuna hjá Hólmaskeri. Með kerfinu er hægt að kalla fram allar þær upplýsingar sem stjórnendur þurfa á að halda í daglegri framleiðslu fyrirtækisins,“ segir Óli Björn í tilkynningu frá Slippnum Akureyri.
Mikil þekking og reynsla til staðar
„Við höfum átt mjög farsælt samstarf við Hólmasker í verkefnum síðustu tvö ár og erum mjög þakklátir fyrir þá trú og traust sem fyrirtækið sýnir okkur í framleiðslu fiskvinnslubúnaðar og núna í hönnun og framleiðslu á handflökunarlínunni. Starfsmenn Slippsins í Grindavík búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á þessu sviði og hér tökumst við á við mjög krefjandi verkefni í þróun og framleiðslu vinnslubúnaðar, auk þess að þjónusta vinnslurnar fljótt og vel þegar á þarf að halda,“ segir Óli Björn.
Framleiðsla á nýju handflökunarlínunni er að hefjast og í framhaldinu annast starfsmenn Slippsins í Grindavík uppsetningu hennar í húsnæði Hólmaskers.