27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Skrifuðu undir styrktarsamning til tveggja ára
Í gær, sumardaginn fyrsta skrifaði Skógræktarfélag Eyfirðinga styrktarsamning við Eyjafjarðarsveit. Í tilkynnningu segir að samningurinn geri Skógræktarfélagi Eyfirðinga kleift að stórauka ræktun, umhirðu og þjónustu við skógarreiti félagsins í Eyjafjarðarsveit í samvinnu við sveitarfélagið.
Samningurinn er til tveggja ára og með honum styrkir Eyjafjarðarsveit Skógræktarfélag Eyfirðinga um tvær milljónir króna hvort árið. Sex af ellefu skógarreitum í umsjón félagsins eru innan marka Eyjafjarðarsveitar og sá sjöundi að hálfu leyti. Þar á meðal eru tveir af elstu reitunum, Garðsárreitur og Leyningshólar en fyrstu verkefni félagsins eftir stofnun þess 1930 voru að friða upprunalegar birkileifar á þessum stöðum.
Samningurinn gerir Skógræktarfélaginu kleift að sinna betur umhirðu umræddra skógarreita og vinna með sveitarfélaginu að úrbótum á aðgengi og aðstöðu.
Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar, og Sigríður Hrefna Pálsdóttir, formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga, undirrituðu samninginn í sumarblíðu við Hrafnagilsskóla í gær, sumardaginn fyrsta. Vottar að undirritun voru Pétur Halldórsson, varaformaður SE, og Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri félagsins.