20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Skógræktarfélag Eyfirðinga leigir út land til ræktunar til félagsmanna að Hálsi í Eyjafjarðarsveit
„Þetta var frábær dagur og tókst mjög vel í alla staði. Við erum mjög stolt af þessu verkefni á Hálsi,“ sagði Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, en um liðna helgi var efnt til viðburðar að Hálsi í Eyjafjarðarsveit þar sem félagið hefur boðið sínum félagsmönnum að leiga land til ræktunar. Í ár eru 30 ára liðin frá því hafist var handa við útleigu á Hálsi, en á þeim tíma var búið að planta út í alla reiti félagsins.
Vignir Sveinsson sem var formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga á þessum tíma fræddi gesti um tilurð þessa landnemaverkefnis á Hálsi og síðar í Saurbæ. Mikil leit var þá gerð að landi til skógræktar fyrir félagsmenn, en svo vildi til að Benedikt Ingimarsson, síðasti ábúandi að Hálsi lést haustið 1992. Fóru forsvarsmenn SE þegar að leita hófanna um að fá það land til ræktunar. Það útheimti talsverða vinnu, bréfaskriftir og formlegar umsóknir sem tíma tók að fá svör við.
Samningur var undirritaður í desember 1993 um leigu á jörðinni til skógræktar og var gildistíminn 75. Við úttekt á ástandi jarðarinnar vorið á eftir kom í ljós að byggingar voru allar ónýtar sem og girðingar. „Efsti hluti jarðarinnar var gróðurlaus, þurr og uppblásinn með miklu jarðvegsrofi, nánast eins og eyðimörk yfir að líta og hvergi tré að sjá. Neðantil voru þó vel gróin svæði og betur fallin til ræktunar,“ sagði Vignir í ávarpi sínu.
Mikill áhugi að fá ræktunarland á leigu
Áhugi fyrir að leiga land að Hálsi reyndist mikill og fór skógræktarfólk, Hallgrímur Indriðason framkvæmdastjóri og starfsmenn hans Aðalsteinn Sigfússon, Valgerður Jónsdóttir og Kristnesbræður, Helgi og Bergsveinn þegar að vinna að framgangi málsins. Fyrsta verkið var að girða landið og friða fyrir ágangi búfjár. Fyrst um 70 hektara svæði austan og norðantil í hálsinum. Samkvæmt skógræktarskipulagi Arnórs Snorrasonar var landinu skipti í 37 reiti, 1 til 2 hektara að stærð. Þá voru lagðir vegslóðar um landið sem og vatnslagnir.
Íbúðarhúsið var lagfært lítillega og nýtt sem vinnuaðstaða starfsmanna og þá voru byggðar snyrtingar fyrir landnema sem kallaðir voru, þ.e. þeir sem tók land á leigu.
Ræktun á svæðinu hófst af fullum krafti sumarið 1995 og voru nánasta allar landspildur komnar í útleigu tveimur árum síðar. Var þá ráðist í að girða það sem eftir var af landinu, um 75 hektara svæði sem skipt var upp í 10 spildur. Nokkrar spildur í báðum áföngum eru leigðar félögum eða félagasamtökum og all stórt svæði er undir landgræðsluskóga sem félagið sjálft sér um.
Arðurinn fyrst og fremst ánægjan
Árið 2005 fékkst viðbótarland, um 150 hektarar að stærð, í landi Saurbæjar og er hluti þess komin í útleigu en enn eitthvað eftir af óleigðum svæðum í fremur erfiðu ræktunarlandi. „Ekki er ósennilegt að eftir því verði sóst þar sem víða er áhugi fyrir því að planta skógi til kolefnisjöfnunar,“ sagði Vignir, en samanlagt land á Hálsi og Saurbæ er um 300 hektarar. Þegar hefur skógur verið ræktaður á um 100 hektörum og hefur hann skapað nýja ásýnd á umhverfið og héraðið í heild. Hann sagði landnema geta verið stolta af verkum sínum, en víða væri þéttur og vöxtulegur skógur á svæðinu með um 10 metra háum trjám. „Þótt arðurinn af skógræktinni sé fyrst og fremst ánægjan enn sem komið er, hefur líka fallið til eitthvað af nýtanlegum grisjunarvið og margir sækja sér jólatré í eigin skóg. Ekki má heldur gleyma því að þeir sem hér hafa ræktað haft einnig lagt sitt af mörkum til að vinna gegn loftslagsbreytingum sem ógna okkur jarðarbúum,“ sagði Vignir
Skógrækt og landnýting
Hermann Ingi Gunnarsson, oddviti Eyjafjarðarsveitar fjallaði um skógrækt og landnýtingu, stuðning sveitarinnar við Skógræktarfélagið og mikilvægi lýðheilsuskóga í samfélagi. Sigurður Ormur, yngsti landneminn á Hálsi leiddi skógargöngu, komið var við hjá Aðalheiði Sigfúsdóttir sem fræddi gesti um landnemalífið og bauð aukin heldur upp á dásamlega núvitundarstund í sínum sælureit. Helgi Þórsson sýndi Kamtsjakareitinn, tilraunareit þar sem m.a. steinbjörk og elritegundir koma við sögu. Að endingu var áð að Niðurlotum, þar Sigurður Ormur og fjölskylda rækta skóg, þar var ýmislegt skeggrætt og rjúkandi ketilkaffi framborið.