Skiptar skoðanir um kaup á slökkvibifreið á 91 milljón
Byggðarráð Norðurþings fjallaði í dag um sameiginlegt útboð sveitarfélaga á vegum Ríkiskaupa vegna slökkvibifreiða. Niðurstöður útboðsins um kaup á nýrri slökkvibifreið fyrir sveitarfélagið var kynnt byggðarráði í síðustu viku. Búið var að gera ráð fyrri 75 milljóna króna fjárútlátum fyrir kaupunum en niðurstaða útboðsins er öllu hærri, eða um 91 m.kr. Byggðarráð samþykkti að taka tilboðinu.
Í dag hefur slökkvilið Norðurþings til umráða slökkvibíl sem tekinn var á leigu hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í fyrravetur en að sögn Gríms Kárasonar, slökkviliðsstjóra er sá bíll kominn á tíma. „Þetta var neyðarlausn en þetta er um 30 ára gamall bíll sem er mikið bilaður,“ segir hann.
Skiptar skoðanir
Deildar meiningar voru innan ráðsins um fjárfestinguna en Aldey Unnar Traustadóttir, forseti sveitarstjórnar fyrir V-lista vill forgangsraða þessum fjármunum í annað. Hún hafði lagt fram tillögu um að draga sveitarfélagið út úr útboðinu áður en niðurstaða þess lá fyrir. „Undirrituð lýsir megnri óánægju með að meirihluti byggðaráðs ætli þrátt fyrir þetta að halda málinu til streitu og ítrekar fyrri tillögur og bókanir í þá veru að tímabært sé að sinna frekar brýnni fjárfestingu í þágu barna og fjölskyldna. Sú fjárþörf hefur safnast upp, m.a. í skólum Norðurþings, ekki síst fyrir það að 300 m.kr. slökkviliðsbygging á Húsavík á liðnum árum hefur skert takmarkaða fjárfestingargetu til annarra hluta. Meðal brýnna fjárfestinga af því tagi er endurnýjun úrelts tölvubúnaðar í stofur og bókasöfn skóla Norðurþings, hljóðkerfis í sal Borgarhólsskóla og húsgagna og aðbúnaðs fyrir kennara og starfsfólk. Þá hefur úrbótum á lóð Borgarhólsskóla ekki verið sinnt, þrátt fyrir áskoranir þar um frá nemendum Borgarhólsskóla. Undirrituð vísar því allri ábyrgð á þessari afgreiðslu og forgangsröðun frá sér,“ segir í bókun Aldeyjar frá 17. mars sl. sem hún ítrekaði á fundinum í dag.
Segir kaupin alltaf verða högg
Benóný Valur Jakobsson, varaformaður byggðarráðs lét bóka að hann hafnaði tillögu V-lista þrátt fyrir að niðurstaða útboðsins hafi verið yfir kostnaðaráætlun. Ég sé það ekki fyrir mér að hagstæðari kjör verði í boði á næstu árum,“ segir Benóný við Vikublaðið og bætti við að endurnýjun slökkvibifreiðar væri afar brýn mjög fljótlega.
Hann sagði að mögulega væri hægt að fresta kaupunum í 2-4 ár en að hann sæi ekki annað en að það yrði skammgóður vermir. „Það verður alltaf högg fyrir sveitarfélagið að kaupa þennan bíl. Ég er ekki viss um, miðað við þróun mála í heiminum í dag að bíllinn eigi eftir að verða eitthvað ódýrari þó að við bíðum. Þess vegna styð ég það að gera þetta, þó vissulega sé margt annað nauðsynlegt líka,“ útskýrir Benóný.
Langt ferli
Grímur er sammála því að glapræði sé að bíða með kaupin. „Að fjárfesta í slökkvibíl er ekki svo einfalt, hann er ekki bara keyptur úti í búð og afhentur samdægurs. Þetta er 18 mánaða ferli frá því að pöntun er lögð inn þar til bíllinn fæst afhentur,“ segir hann og bendir á að bíllin sem er til skoðunar að kaupa geti verið tilbúinn til afhendingar í nóvember 2023, þegar tilboðið er samþykkt.
„Þetta er mál sem þarf bara að klára og ég ætla að vona að pólitíkin okkar geri það eins hratt og vel og kostur er,“ segir Grímur.
Málið var eins og fyrr segir á dagskrá byggðarráðsfundar í dag þar sem tilboðið var samþykkt. Þá samþykkti ráðið viðauka á fjárhagsáætlun næstu þriggja ára vegna kaupanna og vísaði til sveitarstjórnar. Viðaukinn felur í sér hækkun á útgjöldum um 16 m.kr. á tímabilinu 2023-2024, en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir 75 m.kr. fyrir nýrri slökkvibifreið. Samkvæmt tilboði er heildarkaupverð slökkvibifreiðar áætlað 91 m.kr.
„Það þarf að samþykkja viðauka við þriggja ára áætlun til að þetta nái fram að ganga, þannig að sveitarstjórn mun hafa úrslitavald í þessu máli,“ sagði Benóný að lokum.