Skilum góðu búi

Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs Akureyrar skrifar.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs Akureyrar skrifar.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson skrifar

Á fundi bæjarráðs í morgun var lagður fram ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2021 og verður reikningurinn tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn í næstu viku.

Óhætt er að segja að rekstrarniðurstaða ársins hafi farið fram úr björtustu vonum en mikill viðsnúningur varð á rekstri og var samstæða Akureyrarbæjar rekin með 752 milljón króna tekjuafgangi samanborið við ríflega 1.611 milljón króna rekstrarhalla í árinu 2020. 

Árangur náðist með samvinnu

Í september 2020 tóku allir bæjarfulltrúar í bæjarstjórn ákvörðun um að vinna saman í því flókna verkefni sem við stóðum frammi fyrir vegna áhrifa Covid.  Óvissa í rekstri var algjör á þeim tíma, bæði þegar horft var til tekna og gjalda, miklar hækkanir voru á launum vegna kjarasamninga og fyrir lá að taka þyrfti erfiðar ákvarðanir m.a. til að draga úr rekstrargjöldum en á sama tíma að standa vörð um grunnþjónustu sveitarfélagsins. Þá var ljóst að mikill rekstrarhalli  yrði á árinu 2020 og þörf var á auknum lántökum til að standa undir framkvæmdum. 

Fjárhagsáætlun ársins 2021 tók því mið af þessu ástandi sem ríkti síðla árs 2020.  Lögð var rík áhersla á hagræði í rekstri auk þess sem tekjuspá var varfærin þar sem mikil óvissa var um þróun útsvarstekna.  Mitt í þessum ólgusjó stóðum við líka frammi fyrir því að fylgja eftir ákvörðun okkar um að skila rekstri Öldrunarheimila Akureyrar til ríkisins.  Sú ákvörðun var ekki auðveld og nokkuð umdeild í samfélaginu en sameinuð bæjarstjórn stóð í lappirnar og má glöggt sjá jákvæð áhrif af þeirri ákvörðun í rekstri ársins 2021.

Strax í upphafi árs 2021 lá fyrir að þær aðgerðir sem stjórnvöld gripu til skiluðu árangur og útsvarstekjur skiluðu sér mun betur en ráð var fyrir gert.  Þrátt fyrir að ljóst væri að tekjur sveitarfélagsins yrðu mun hærri á árinu 2021, en áætlanir gerðu ráð fyrir, var algjör samstaða innan bæjarstjórnar að halda áfram á þeirri vegferð sem að var stefnt.

Sjálfbærni í rekstri

Í samstarfssáttmála sameinaðar bæjarstjórnar var sjálfbærni sveitarfélagsins höfð að leiðarljósi.  Rekstur A-hluta sveitarfélagsins, sem samanstendur af aðalsjóði og eignasjóðum og fjármagnaður er að mestu með skatttekjum, hefur verið rekinn með halla.  Og þrátt fyrir að  Akureyrarbær hafi uppfyllt þau skilyrði sem sett eru um fjármál sveitarfélaga um jafnvægi í rekstri samstæðunnar (vegna góðrar afkomu Norðurorku og Hafnasamlagsins) var ljóst að neikvæð afkoma A-hlutans var og er ekki ásættanleg til lengdar.   Bæjarstjórn var því samstillt í því verkefni að ná fram sjálfbærni í rekstri A-hluta sveitarfélagsins og voru hagræðingar settar fram í fjárhagsáætlun bæði fyrir árið 2021 sem og fyrir yfirstandandi ár. Var meðal annars ráðist í umfangsmiklar stjórnsýslubreytingar sem tóku gildi í upphafi þessa árs og á sama tíma höfum við líka horft til aukinna tekna m.a. með hækkun gatnagerðargjalda, hafið sölu á lóðum og tekið upp gjaldskyldu á bílastæðum í miðbæ.

Það er því afar ánægjulegt að sjá þá þróun sem er að verða á rekstrinum, en  A-hluti sveitarfélagsins var rekinn með 318 milljón króna hagnaði á árinu 2021.  Þá gefa fyrstu tölur um staðgreiðslu útsvars á árinu 2022 ástæðu til nokkurrar bjartsýni og með þeim aðgerðum sem ráðist hefur verið í er ljóst að við munum ná fram sjálfbærni í rekstri A-hluta til framtíðar, mun fyrr en ráð var fyrir gert.

Bjart framundan

Já það er sannanlega ástæða til að horfa björtum augum til framtíðar eftir erfið Covid ár.   Staða sveitarfélagsins er mjög sterk, skuldahlutföll eru með því betra sem gerist þegar horft er til sambærilegra sveitarfélaga, tekjur sveitarfélagsins eru að aukast umfram landsmeðaltal, íbúafjölgun var umfram landsmeðaltal á liðnu ári, atvinnuástand er gott og ferðaþjónustan er að taka við sér af miklum krafti sem mun hafa víðtæk áhrif og þá ekki síst á umsvif Hafnasamlagsins.

Það er því góður tímapunktur til að standa upp og yfirgefa svið bæjarmála, framtíðin er björt og viðtakandi bæjarstjórn tekur við traustu og góðu búi.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson

Formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar

 

 

Nýjast